Körfubolti

Hitt liðið fékk flautukörfuna eftir furðulega atburðarás

Sindri Sverrisson skrifar
Vlatko Cancar og félagar fögnuðu ógurlega eftir flautukörfuna óvæntu sem kom eftir hálfleikshléið, en tilheyrði fyrri hálfleik.
Vlatko Cancar og félagar fögnuðu ógurlega eftir flautukörfuna óvæntu sem kom eftir hálfleikshléið, en tilheyrði fyrri hálfleik. AP/LM Otero

Afar óvenjuleg uppákoma varð í leik Dallas Mavericks og Denver Nuggets í NBA-deildinni í gær þar sem annar leikhluti leiksins var í raun kláraður eftir hálfleikshléið.

Luka Doncic taldi sig hafa skorað fallegan flautuþrist fyrir Dallas áður en liðin gengu til búningsklefa eftir fyrri hálfleik. Doncic og félagar fóru inn í klefa með það í huga að þeir væru sjö stigum yfir.

Dómararnir skoðuðu hins vegar körfuna á myndbandi og komust að þeirri niðurstöðu að Doncic hefði stigið út fyrir völlinn.

Úr því að liðin voru þá farin inn til búningsklefa varð að bíða með áhrif dómsins þar til eftir hálfleikshléið. Að því loknu voru spilaðar þær tvær sekúndur sem höfðu verið eftir af öðrum leikhluta þegar Doncic steig á línuna.

Hafi vonbrigði Dallas ekki verið næg yfir því að karfa Doncic fengi ekki að standa þá náði Vlatko Cancar að setja niður flautuþrist á þessum tveimur sekúndum, og minnka forskot Dallas niður í aðeins eitt stig. Staðan var þá 56-55 en ekki 59-52 eins og leikmenn héldu í hálfleikshléinu.

Þetta gæti hafa gert gæfumuninn fyrir Denver sem að okum vann eins stigs sigur, 98-97, þrátt fyrir að byrjunarliðsmennirnir Nikola Jokic, Jamal Murray og Aaron Gordon misstu allir af leiknum, og að Jeff Green væri einnig meiddur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.