Umfjöllun: Valur - Stjarnan 35-29 | Logar serían fram að jólum? Sindri Sverrisson skrifar 18. nóvember 2022 22:04 Valsmenn fagna sigrinum í kvöld. vísir/diego Valsmenn unnu Stjörnuna í fyrsta leik tíundu umferðar Olís-deildar karla í handbolta, 35-29, þrátt fyrir að lenda sex mörkum undir í fyrri hálfleiknum. Leikjaálagið er mikið hjá Val þessa dagana og skammt stórra högga á milli því á þriðjudagskvöld spilar liðið fyrir fullu húsi gegn stórliði Flensburg á Hlíðarenda, í Evrópudeildinni. Það mætti líkja þjálfaranum Snorra Steini Guðjónssyni við hagsýnan fjölskylduföður sem ætlar sér að láta jólaseríuna glóa úti á svölum fram að jólum, sama hvaða veður á dynur, og þarf að sýna fyrirhyggju og næmni við að velja perur og skipta þeim út þannig að hún virki hverju sinni. Í kvöld var Valur til að mynda án þungavigtarmannanna Magnúsar Óla Magnússonar og Róberts Arons Hostert, sem báðir hefðu getað tekið þátt í leiknum en eru að jafna sig af meiðslum. Búast má áfram við skakkaföllum í því þétta prógrammi sem Valsmenn verða í fram til 19. desember, og jafnframt að þeir tapi gegn sterkustu andstæðingunum í Evrópudeildinni, en hvað innlendan markað varðar þá ráða þeir alveg við slík skakkaföll og leikurinn í kvöld var staðfesting á að serían muni glóa áfram í Olís-deildinni. Benedikt Gunnar Óskarsson var að öðrum ólöstuðum maður leiksins.vísir/Diego Benedikt Gunnar Óskarsson var senuþjófur kvöldsins, ásamt reyndar Björgvini Páli Gústavssyni sem gerði gæfumuninn með frábærum kafla í seinni hálfleik. Benedikt skoraði alls tíu mörk í leiknum og Björgvin endaði með 33% markvörslu eftir að markverðir Vals höfðu ekkert varið í fyrri hálfleiknum. Stjarnan hefur verið að komast á ról eftir erfiða byrjun á tímabilinu og í fyrri hálfleik virtist liðið hreinlega ætla að stimpla sig af krafti inn í toppbaráttu deildarinnar. Mörkin komu frá mörgum mönnum og liðið gaf Val bragð af eigin meðali með því að geysast oft strax fram í sókn þegar færi gafst. Í fjarveru Adams Thorstensen, sem meiddist á æfingu, varði Arnór Freyr Stefánsson prýðilega í fyrri hálfleiknum, auk þess að skora tvö mörk þegar Valsmenn beittu 7 á 6 í sókn, og Stjarnan komst meðal annars í 16-10 og 17-11. Tandri Már Konráðsson reynir að komast að marki Vals en Aron Dagur Pálsson verst.vísir/Diego Staðan í hálfleik var 19-16 fyrir Stjörnuna en Arnór Snær og Benedikt Gunnar Óskarssynir settu á fulla ferð í upphafi seinni hálfleiks og Valur komst strax yfir, 20-19. Þeir Arnór, Benedikt og Aron Dagur Pálsson mynduðu útilínu Vals stærstan hluta leiksins og gerðu það vel. Stjarnan kom sér hins vegar áfram í fín færi á hinum enda vallarins en um miðjan seinni hálfleik fór Björgvin Páll að verja úr hverju dauðafæri Stjörnunnar á fætur öðru. Það dró á mjög skömmum tíma allan þrótt úr gestunum sem eftir að hafa verið 26-25 undir um miðjan seinni hálfleik skoruðu ekki mark í sjö mínútur á meðan að Valsmenn röðuðu inn auðveldum mörkum og unnu loks 35-29. Valsmenn hafa þar með unnið níu af tíu deildarleikjum sínum og eru með fimm stiga forskot á Fram á toppi deildarinnar, en Framarar eiga leik til góða. Stjarnan er með 11 stig í 5. sæti. Snorri Steinn: „Mér fannst það of mikið“ „Ég er mjög ánægður, engin spurning,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, sem viðurkenndi þó að slen hefði verið yfir Valsmönnum í fyrri hálfleiknum. „Fyrri hálfleikur var kannski ekki alveg nægilega góður en samt vorum við nálægt því að spila eins og ég vildi. Við náðum að spýta aðeins í lófana og gera betur í seinni hálfleik. Vörnin varð þéttari og Bjöggi fór að verja, og þá tikkaði þetta jafnt og þétt.“ Snorri Steinn Guðjónsson fylgist íbygginn með leiknum í kvöld.vísir/Diego Valsmenn spiluðu nokkuð sjö gegn sex í fyrri hálfleiknum. Þeir fengu tvisvar mark á sig frá Arnóri Frey Stefánssyni, markverði Stjörnunnar en það angraði Snorra lítið, öfugt við frammistöðu Vals varnarlega: „Þetta [7 á 6] gekk bara mjög vel. Við fengum fullt af færum. Ég var meira óánægður með varnarleikinn og hvernig við skiluðum okkur til baka. Við fengum á okkur tvö mörk úr tæknifeilum og annað, en þeir þurftu að bakka niður og tempóið í leiknum riðlaðist aðeins, eins og þetta útspil mitt gekk út á. En ég hefði ekki viljað fá á mig nítján mörk í fyrri hálfleik. Mér fannst það of mikið,“ sagði Snorri. Hann tók undir að Björgvin Páll hefði skipt sköpum í seinni hálfleik: „Hvorugur markvörðurinn fann sig í fyrri hálfleik, í takt við slappan varnarleik. Það var smáslen yfir þessu, ég játa það. En þetta kom í seinni hálfleik og þegar þeir fengu sín færi þá varði Bjöggi bara líka. Eðlilega dregur það tennurnar úr andstæðingnum.“ Staðan á Magnúsi og Róberti þokkaleg Aðspurður um stöðuna á Magnúsi Óla og Róberti svaraði Snorri: „Maggi læstist í bakinu gegn Haukum og Róbert meiddist í læri í Benidorm. Staðan á þeim er þokkaleg. Ég vildi fara varlega í hlutina. Ég veit að þeir vilja spila leikinn og gera allt til þess, og ég reikna með að þeir verði klárir. Robbi æfði þokkalega fram að þessum leik og svo var það mín ákvörðun að hvíla Magga í dag. Ég reikna með þeim á þriðjudaginn en næstu æfingar skera úr um það,“ sagði Snorri. Olís-deild karla Valur Stjarnan
Valsmenn unnu Stjörnuna í fyrsta leik tíundu umferðar Olís-deildar karla í handbolta, 35-29, þrátt fyrir að lenda sex mörkum undir í fyrri hálfleiknum. Leikjaálagið er mikið hjá Val þessa dagana og skammt stórra högga á milli því á þriðjudagskvöld spilar liðið fyrir fullu húsi gegn stórliði Flensburg á Hlíðarenda, í Evrópudeildinni. Það mætti líkja þjálfaranum Snorra Steini Guðjónssyni við hagsýnan fjölskylduföður sem ætlar sér að láta jólaseríuna glóa úti á svölum fram að jólum, sama hvaða veður á dynur, og þarf að sýna fyrirhyggju og næmni við að velja perur og skipta þeim út þannig að hún virki hverju sinni. Í kvöld var Valur til að mynda án þungavigtarmannanna Magnúsar Óla Magnússonar og Róberts Arons Hostert, sem báðir hefðu getað tekið þátt í leiknum en eru að jafna sig af meiðslum. Búast má áfram við skakkaföllum í því þétta prógrammi sem Valsmenn verða í fram til 19. desember, og jafnframt að þeir tapi gegn sterkustu andstæðingunum í Evrópudeildinni, en hvað innlendan markað varðar þá ráða þeir alveg við slík skakkaföll og leikurinn í kvöld var staðfesting á að serían muni glóa áfram í Olís-deildinni. Benedikt Gunnar Óskarsson var að öðrum ólöstuðum maður leiksins.vísir/Diego Benedikt Gunnar Óskarsson var senuþjófur kvöldsins, ásamt reyndar Björgvini Páli Gústavssyni sem gerði gæfumuninn með frábærum kafla í seinni hálfleik. Benedikt skoraði alls tíu mörk í leiknum og Björgvin endaði með 33% markvörslu eftir að markverðir Vals höfðu ekkert varið í fyrri hálfleiknum. Stjarnan hefur verið að komast á ról eftir erfiða byrjun á tímabilinu og í fyrri hálfleik virtist liðið hreinlega ætla að stimpla sig af krafti inn í toppbaráttu deildarinnar. Mörkin komu frá mörgum mönnum og liðið gaf Val bragð af eigin meðali með því að geysast oft strax fram í sókn þegar færi gafst. Í fjarveru Adams Thorstensen, sem meiddist á æfingu, varði Arnór Freyr Stefánsson prýðilega í fyrri hálfleiknum, auk þess að skora tvö mörk þegar Valsmenn beittu 7 á 6 í sókn, og Stjarnan komst meðal annars í 16-10 og 17-11. Tandri Már Konráðsson reynir að komast að marki Vals en Aron Dagur Pálsson verst.vísir/Diego Staðan í hálfleik var 19-16 fyrir Stjörnuna en Arnór Snær og Benedikt Gunnar Óskarssynir settu á fulla ferð í upphafi seinni hálfleiks og Valur komst strax yfir, 20-19. Þeir Arnór, Benedikt og Aron Dagur Pálsson mynduðu útilínu Vals stærstan hluta leiksins og gerðu það vel. Stjarnan kom sér hins vegar áfram í fín færi á hinum enda vallarins en um miðjan seinni hálfleik fór Björgvin Páll að verja úr hverju dauðafæri Stjörnunnar á fætur öðru. Það dró á mjög skömmum tíma allan þrótt úr gestunum sem eftir að hafa verið 26-25 undir um miðjan seinni hálfleik skoruðu ekki mark í sjö mínútur á meðan að Valsmenn röðuðu inn auðveldum mörkum og unnu loks 35-29. Valsmenn hafa þar með unnið níu af tíu deildarleikjum sínum og eru með fimm stiga forskot á Fram á toppi deildarinnar, en Framarar eiga leik til góða. Stjarnan er með 11 stig í 5. sæti. Snorri Steinn: „Mér fannst það of mikið“ „Ég er mjög ánægður, engin spurning,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, sem viðurkenndi þó að slen hefði verið yfir Valsmönnum í fyrri hálfleiknum. „Fyrri hálfleikur var kannski ekki alveg nægilega góður en samt vorum við nálægt því að spila eins og ég vildi. Við náðum að spýta aðeins í lófana og gera betur í seinni hálfleik. Vörnin varð þéttari og Bjöggi fór að verja, og þá tikkaði þetta jafnt og þétt.“ Snorri Steinn Guðjónsson fylgist íbygginn með leiknum í kvöld.vísir/Diego Valsmenn spiluðu nokkuð sjö gegn sex í fyrri hálfleiknum. Þeir fengu tvisvar mark á sig frá Arnóri Frey Stefánssyni, markverði Stjörnunnar en það angraði Snorra lítið, öfugt við frammistöðu Vals varnarlega: „Þetta [7 á 6] gekk bara mjög vel. Við fengum fullt af færum. Ég var meira óánægður með varnarleikinn og hvernig við skiluðum okkur til baka. Við fengum á okkur tvö mörk úr tæknifeilum og annað, en þeir þurftu að bakka niður og tempóið í leiknum riðlaðist aðeins, eins og þetta útspil mitt gekk út á. En ég hefði ekki viljað fá á mig nítján mörk í fyrri hálfleik. Mér fannst það of mikið,“ sagði Snorri. Hann tók undir að Björgvin Páll hefði skipt sköpum í seinni hálfleik: „Hvorugur markvörðurinn fann sig í fyrri hálfleik, í takt við slappan varnarleik. Það var smáslen yfir þessu, ég játa það. En þetta kom í seinni hálfleik og þegar þeir fengu sín færi þá varði Bjöggi bara líka. Eðlilega dregur það tennurnar úr andstæðingnum.“ Staðan á Magnúsi og Róberti þokkaleg Aðspurður um stöðuna á Magnúsi Óla og Róberti svaraði Snorri: „Maggi læstist í bakinu gegn Haukum og Róbert meiddist í læri í Benidorm. Staðan á þeim er þokkaleg. Ég vildi fara varlega í hlutina. Ég veit að þeir vilja spila leikinn og gera allt til þess, og ég reikna með að þeir verði klárir. Robbi æfði þokkalega fram að þessum leik og svo var það mín ákvörðun að hvíla Magga í dag. Ég reikna með þeim á þriðjudaginn en næstu æfingar skera úr um það,“ sagði Snorri.
Leik lokið: Keflavík - Tindastóll 120-93 | Nýju mennirnir í stuði í stórsigri Keflvíkinga Körfubolti
Leik lokið: Keflavík - Tindastóll 120-93 | Nýju mennirnir í stuði í stórsigri Keflvíkinga Körfubolti