Körfubolti

„Hún er að verða einn af mínum uppáhaldsleikmönnum í deildinni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eva Margrét Kristjánsdóttir er búin að vera frábær í fjarveru lykilmanna í Haukaliðinu.
Eva Margrét Kristjánsdóttir er búin að vera frábær í fjarveru lykilmanna í Haukaliðinu. Vísir/Bára

Eva Margrét Kristjánsdóttir hefur spilað frábærlega með Haukaliðinu í Subway deild kvenna í vetur og átti stórleik á miðvikudagskvöldið þegar Haukakonur sóttu sigur á Hlíðarenda.

Eva Margrét var með 25 stig, 14 fráköst og 10 fiskaðar villur í 89-76 sigri Hauka á Val og það er óhætt að segja að Valskonur hafi ráðið lítið við hana undir körfunni en Eva nýtt 64 prósent skota sinna í leiknum og bjó líka til sjö nýjar sóknir með sóknarfráköstum.

Eva Margrét fékk líka mikið hrós í Subway Körfuboltakvöldi.

„Ég fá það á tilfinninguna að þeim sé alveg saman hver sé að skora. Ef þessi leikmaður er að skora þá er hún bara að fá boltann,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir um Haukaliðið.

S2 Sport

„Eva Margrét var stórkostleg og mér finnst hún bara verða betri og betri með hverjum leiknum,“ sagði Ólöf Helga.

„Hún er fljótt að verða einn af mínum uppáhaldsleikmönnum í deildinni. Hún er alltaf rosalega góð að klára í kringum körfuna og það sést bara á skotnýtingunni hennar,“ sagði Hörður Unnsteinsson, umsjónarmaður Subway Körfuboltakvölds.

„Þetta er búið að vera staðfast í þrjár, fjórar umferðir núna þar sem hún er alltaf með þessa tölfræði,“ sagði Hörður.

„Hún er alltaf tilbúin og er líka að fá aðeins fleiri mínútur en vanalega af því að nú vantar tvær stórar í liðið. Hún hefur ekki verið að spila þrjátíu plús áður,“ sagði Ólöf Helga og er þar að tala um að Haukar spilar án Helenu Sverrisdóttur og Lovísu Henningsdóttur sem eru meiddar.

„Þú ert með Lovísu og Helenu líka í þessum stöðum en á meðan að þessar tvær sitja þá er hún að stíga upp fyrir liðið. Það er hrikalega vel gert,“ sagði Ólöf Helga.

Það má horfa á umfjöllunina um Evu Margréti og Haukaliðið hér fyrir neðan.

Klippa: Subway Körfuboltakvöld: Eva Margrét og Haukastelpurnar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×