Eins ótrúlegt og það hljómar var leikur Keflavíkur og Breiðabliks nokkuð spennandi í fyrsta leikhluta en að honum loknum munaði aðeins einu stigi á liðinu. Eftir það settu Keflvíkingar í fluggírinn á meðan Blikar festust í kviksyndi.
Munurinn á liðunum í hálfleik var kominn upp í 11 stig og jókst svo enn meira í síðari hálfleik. Á endanum fór það svo að Keflavík vann 35 stiga sigur og þar með sinn níunda leik í röð í deildinni.
Anna Lára Vignisdóttir var stigahæst í liði Keflavíkur með 17 stig. Sanja Orozvic var stigahæt í liði Blika með 15 stig en hún tók einnig 14 fráköst.
Fjölnir tók á móti ÍR og stefndi í öruggan sigur heimaliðsins þegar þremur leikhlutum var lokið. Fjölnir leiddi þá með 14 stiga mun og virtist ætla að vinna einkar þægilegan sigur.
ÍR-ingar komu hins vegar til baka og var staðan óvænt orðin jöfn þegar aðeins örfáar sekúndur voru til leiksloka. Fjölnir náði á endanum að setja körfuna sem skildi liðin að og vann tveggja stiga sigur, 83-81.
Taylor Dominique Jones var stigahæst hjá Fjölni með 36 stig. Urté Slavickaite kom þar á eftir með 26 stig. Hjá ÍR var Greeta Uprus með 21 stig og Rebekka Rut Hjálmarsdóttir með 19 stig.
Keflavík er á toppi deildarinnar með níu sigra í níu leikjum. Á sama tíma er ÍR á botninum án stiga. Grindavík er í 5. sæti með þrjá sigra og sex töp líkt og Fjölnir sem er sæti neðar.
Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.