Handbolti

Gísli markahæstur hjá Magdeburg í Meistaradeild og með lygilega nýtingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur sjaldan eða aldrei spilað jafn vel og þessa dagana.
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur sjaldan eða aldrei spilað jafn vel og þessa dagana. getty/Frederic Scheidemann

Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur heldur betur farið vel af stað með Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Hann er markahæsti leikmaður liðsins í keppninni og með frábæra skotnýtingu.

Hafnfirðingurinn skoraði sjö mörk úr átta skotum þegar Magdeburg gerði jafntefli við Veszprém á útivelli í gær, 35-35. Aðeins félagi hans í íslenska landsliðinu, Ómar Ingi Magnússon, skoraði meira, eða átta mörk.

Gísli hefur skorað 24 mörk í fimm leikjum í Meistaradeildinni í vetur og er sextándi markahæsti leikmaður keppninnar. Enginn leikmaður Magdeburg hefur skorað meira.

Það sem meira er þá er Gísli með framúrskarandi skotnýtingu en hann hefur skorað úr 24 af 29 skotum sínum í Meistaradeildinni. Það gerir 82,8 prósent skotnýtingu sem þykir gott fyrir línumann, hvað þá leikstjórnanda.

Gísli hefur einnig spilað vel í þýsku úrvalsdeildinni í vetur. Í sjö leikjum hefur hann skorað 24 mörk og gefið 24 stoðsendingar. Ómar Ingi er langmarkahæstur í liði Magdeburg í þýsku deildinni með 48 mörk, þrátt fyrir að hafa misst af einum leik. Hann hefur einnig gefið 27 stoðsendingar.

Í Meistaradeildinni hefur Ómar Ingi skorað 21 mark í fjórum leikjum. Hann hefur jafnframt gefið fimmtán stoðsendingar. Aðeins ellefu leikmenn hafa gefið fleiri stoðsendingar í keppninni en Selfyssingurinn. 

Gísli og Ómar Ingi léku báðir stórvel þegar Magdeburg tryggði sér heimsmeistaratitil félagsliða með sigri á Barcelona, 41-39, eftir framlengdan leik á sunnudaginn. Ómar Ingi skoraði tólf mörk, þar af tvö síðustu mörk Magdeburg í leiknum, og Gísli var með sex mörk.

Slóveninn Aleks Vlah hjá Celje er markahæstur í Meistaradeildinni í vetur með 41 mark. Pólski línumaðurinn Kamil Syprzak hjá Paris Saint-Germain kemur næstur með 35 mörk og svo Mikkel Hansen hjá Álaborg með 33 mörk.

Magdeburg er í 3. sæti A-riðils Meistaradeildarinnar með sjö stig eftir fimm leiki. Bjarki Már Elísson og félagar í Veszprém eru á toppi hans með níu stig. Bjarki skoraði eitt mark í leiknum gegn Magdeburg í gær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.