Innlent

Lög­reglan varar við skila­boðum sem inni­halda tjákn

Árni Sæberg skrifar
Hér má sjá sýnidæmi um tilraun til netsvindls.
Hér má sjá sýnidæmi um tilraun til netsvindls. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir ekkert lát vera á netsvindli sem herjað hefur á eldri netverja síðustu misseri. Meðal ráða sem lögreglan deilir er að varast skilaboð sem innihalda svokölluð tjákn (e. emojis), nema þau komi frá börnum.

Í tilkynningu á Facebooksíðu lögreglunnar segir að vart hafi orðið nokkrar um atlögur netþrjóta, sem komist hafa yfir aðgang að Facebookreikningum fólks, um helgina.

Þar segir að glæpamenn nýti aðgangana til þess að senda skilaboð á fólk og biðja það að senda upplýsingar á borð við símanúmer og kortanúmer.

„Sérstaklega eldra fólk er grandlaust og heldur að vinur sé í sambandi og sendir símanúmer, myndir af greiðslukortum og staðfestir kóða,“ segir í tilkynningu lögreglu. Glæpamennirnir nýti sér upplýsingarnar til þess að fara inn á heimabanka fólks, hækka heimild á greiðslukortum og kaupa vörur á netinu í öðrum löndum. Tap fólks geti numið um milljón króna.

Lögreglan deilir eftirfarandi ráðum til þess að forðast að láta narra sig:

  1. Verið tortryggin á skrýtin skilaboð frá vinum
  2. Alls ekki taka myndir af kortum og setja það á samfélagsmiðla
  3. Ekki staðfesta kóða í síma sem leiða frá svona spjalli
  4. Ef þetta er skrítið, hættið þessum samskiptum og hringið í vin ykkar og kannið hvað er í gangi
  5. Textamyndir 🤩🥳🎉❤🥰 eru hættumerki, nema frá börnum. Ef þið fáið þau frá vinum sem eru ekki vön að nota þau, þá eru það líklega aðrir sem eru búnir að stela reikningi þeirra.

„Brotaþolar eru oftast yfir 50 ára. Ef þið eigið ástvini á Facebook sem eru á þessum aldri og eldri, varið þau við,“ segir í lok tilkynningar lögreglunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×