Körfubolti

Tjáir sig í fyrsta sinn eftir að Green kýldi hann kaldan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Golden State Warriors valdi Jordan Poole með 28. valrétti í nýliðavalinu 2019.
Golden State Warriors valdi Jordan Poole með 28. valrétti í nýliðavalinu 2019. getty/Thearon W. Henderson

Jordan Poole, leikmaður NBA-meistara Golden State Warriors, hefur í fyrsta sinn tjáð sig um atvikið þar sem samherji hans, Draymond Green, kýldi hann í andlitið á æfingu.

Green var sektaður og sendur í leyfi eftir að myndband þar sem hann sást kýla Poole fór í dreifingu á samfélagsmiðla.

„Hann baðst afsökunar og við ætlum að taka á þessu sjálfir. Við ætlum að spila körfubolta og allir í búningsklefanum vita hvað þarf til að verða meistari. Og við gerum það inni á vellinum,“ sagði Poole.

„Meira hef ég í raun ekki að segja um málið. Við erum hérna til að vinna meistaratitla.“

Um helgina bárust fréttir af því að Poole hefði skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við Golden State að verðmæti 140 milljónir Bandaríkjadala. Green hefur hins vegar ekki fengið nýjan samning og ekki jukust líkurnar á því eftir að hann kýldi Poole.

Hinn 32 ára Green hefur leikið með Golden State allan sinn feril í NBA og fjórum sinnum orðið meistari með liðinu (2015, 2017, 2018 og 2022).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×