Icelandair, Isavia, Landsvirkjun og Samtök ferðaþjónustunnar stóðu fyrir málstofunni, sem fjallað var um í fréttum Stöðvar 2. Meðal framsögumanna var fulltrúi bandaríska fyrirtækisins Universal Hydrogen, sem vinnur að tiltölulega fljótlegri leið til orkuskipta. Í stað þess að þróa og smíða nýja flugvél frá grunni hyggst það umbreyta flugvélum sem þegar eru í notkun.

„Við erum í fyrsta lagi að þróa endurbótapakka fyrir skrúfuþotur sem eru í notkun núna, eins og Dash-8 vélarnar sem Icelandair notar innanlands. Þessi endurbótapakki gerir okkur kleift að breyta flugvélum þannig að þær séu knúnar með vetni í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti eins og núna,“ segir Rod Williams, viðskiptastjóri Universal Hydrogen.
Jafnframt gengur hugmyndin út á það að í stað þess að dæla vetni á eldsneytisgeyma í flugvélinni verður skipt um vetnishylki eftir hverja flugferð.

„Hylkin eru einfaldlega fjarlægð og ný hylki sett í staðinn þegar á að fara í annað flug,“ segir Rod Williams.
Hann telur Ísland ákjósanlegan vettvang fyrir slík orkuskipti.
„Á heimsvísu held ég að Ísland sé einn af eftirsóknarverðustu stöðunum vegna mikils framboðs á grænu rafmagni og grænum orkugjöfum í landinu.“

Og það gæti verið stutt í byltinguna með þessari aðferð.
„Við áætlum að þróun flugvélarinnar verði lokið og hún verði vottuð árið 2025 og þá getum við afhent fyrstu flugvélina innan þess tímaramma,“ segir talsmaður Universal Hydrogen.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: