Körfubolti

Steve Kerr: Hnefahögg Green versta krísa sem hann hefur þurft að glíma við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Draymond Green hefur unnið fjóra meistaratitla með Golden State Warriors.
Draymond Green hefur unnið fjóra meistaratitla með Golden State Warriors. EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO SHUTTERSTOCK

Draymond Green verður aðeins sektaður fyrir hnefahögg sitt á æfingu Golden State Warriors en leikmaðurinn fer ekki í bann.

Green er nú laus allra mála, hann má mæta á æfingu Golden State í dag og hann mun spila með liðinu annað kvöld.

Green veitti liðsfélaga sínum Jordan Poole vænt hnefahögg á æfingu í síðustu viku og hafði ekki æft með liðinu síðan. Green hafði beðið alla afsökunar og eftir að myndband af högginu lak út og hneykslað marga þá bjuggust flestir við leikbanni. Svo er ekki raunin.

„Þetta er mesta krísa sem ég hef þurft að glíma við síðan ég tók við þjálfun liðsins,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors, á blaðamannafundi.

„Ég hef verið í þrjátíu ár í þessar deild og á þeim tíma séð alls konar klikkaða hluti. Þegar hlutir haldast innanhúss þá er auðveldara að vinna úr þeim en þegar svona lekur út þá verður allt vitlaust sem hefur áhrif á alla leikmenn. Þetta setti alla í okkar liði í erfiða stöðu,“ sagði Kerr.

„Þetta er virkilega alvarlegt mál. Við erum ekki fullkomnir en við ætlum að nýta okkur reynsluna af okkar samvinnu í gegnum og treysta því að þetta sé besta launin. Við þurfum allir að leggja á okkur vinnu til að vinna úr þessu,“ sagði Kerr.

Kerr sagði að Jordan Poole hafi fundað margoft með honum og forráðamönnum félagsins áður en hann fundaði síðan með Green. Kerr segir að Poole sé tilbúinn að horfa til framtíðar og snúa til baka inn á gólfið við hlið Draymond.

„Það er engin spurning að liðsmenningin okkar hefur borið skaða af þessu og við þurfum að vinna í því að laga það,“ sagði Kerr.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×