Umfjöllun og viðtöl: Valur - Keflavík 75-78 | Sigurganga Keflavíkur heldur áfram

Andri Már Eggertsson skrifar
Valur - Keflavík. Subway deild kvenna. Vetur 2021-2022. Körfubolti.
Valur - Keflavík. Subway deild kvenna. Vetur 2021-2022. Körfubolti. vísir/bára

Keflavík vann Val 75-78. Keflavík hefur unnið alla fjóra leikina í Subway deild-kvenna og er á toppnum með átta stig. Leikurinn var í járnum nánast allan leikinn en Keflavík sýndi klærnar í fjórða leikhluta sem skilaði sigrinum þrátt fyrir mikla baráttu Vals undir lokin.

Keflavík mætti í Origo-höllina með sjálfstraustið í botni. Keflavík hafði bæði unnið Íslandsmeistara Njarðvíkur og bikarmeistara Hauka.

Valur byrjaði á að gera fyrstu fimm stigin og var með yfirhöndina í fyrsta leikhluta. Keflavík spilaði sína hápressu vörn en það var mikið um villur í fyrsta leikhluta. Leikurinn var mikið stopp og var lítið flæði um tíma. Heimakonur voru fjórum stigum yfir eftir fyrsta leikhluta 22-18.

Keflavík fór ansi klaufalega með boltann í öðrum leikhluta. Gestirnir töpuðu sex boltum á innan við fimm mínútum. Valur komst sjö stigum yfir 30-23 þegar annar leikhluti var hálfnaður.

Gestirnir bitu frá sér undir lok fyrri hálfleiks. Keflavík gerði síðustu níu stigin í fyrri hálfleik. Gestirnir voru þremur stigum yfir í hálfleik 32-35 og var það í fyrsta skiptið sem Keflavík komst yfir í leiknum.

Keflavík byrjaði seinni hálfleik betur og gerði sjö stig í röð þar sem körfurnar komu upp úr stolnum boltum. Í stöðunni 37-42 tók Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, leikhlé. Þegar líða tók á þriðja leikhluta fór Valur að taka Keflavík á eigin bragði og spila þétta vörn upp allan völlinn sem gekk vel.

Valur átti gott áhlaup undir lok þriðja leikhluta þar sem varnarleikurinn var öflugur ásamt sóknarleiknum sem skilaði auðveldum körfum og Valur gerði tíu stig í röð. Valur var sex stigum yfir þegar haldið var í síðasta fjórðung.

Leikurinn var í jafnvægi í byrjun fjórða leikhluta og síðan tók Daniela Wallen Morillo af skarið og virtist vera að klára leikinn þegar hún gerði sex stig í röð. Valur hitti úr stórum skotum í lokin á ögurstundu og Keflavík þurfti að fara á vítalínuna til að klára leikinn. Kiana Johnson fékk tækifæri til að setja niður þrist og fara með leikinn í framlengingu en skot hennar framan á hringinn og Keflavík vann þriggja stiga sigur 75-78. 

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík var sterkari á svellinu í fjórða leikhluta. Valur var sex stigum yfir fyrir síðasta fjórðung en missti tökin á leiknum og Keflavík gekk á lagið. 

Varnarleikur Keflavíkur hefur verið öflugur í byrjun móts og þrátt fyrir að Valur vissi nákvæmlega að Keflavík myndi pressa þá tapaði Valur 24 boltum og Keflavík gerði 29 stig upp úr töpuðum boltum Vals. 

Hverjar stóðu upp úr?

Venju samkvæmt spilaði Daniela Wallen Morillo vel. Hún gerði 28 stig, tók 6 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal 6 boltum. Daniela skilaði einnig 32 framlagspunktum.

Karina Denislavova Konstantinova spilaði einnig vel. Hún gerði 20 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Karina endaði með 26 framlagspunkta. 

Hvað gekk illa?

Valur var í vandræðum með varnarleik Keflavíkur þar sem Valur leysti pressu Keflavíkur illa og Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, sagði í viðtali eftir leik að öll leikhléin sem hann tók voru til að skerpa á þessu vandamáli. 

Valur tapaði 24 boltum og Keflavík gerði 29 stig beint eftir tapaða bolta Vals. 

Hvað gerist næst?

Valur fer til Grindavíkur næsta miðvikudag og liðin eigast við klukkan 18:15.

Keflavík fær ÍR í heimsókn klukkan 19:15 næsta miðvikudag.

„Ég klikkaði á víti í síðustu viku og þarf að vera betri fyrirmynd fyrir stelpurnar“

Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með sigurinn vísir/sigurjón

Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með sigur kvöldsins.

„Baráttan var góð og ég var mjög sáttur með hvernig stelpurnar spiluðu í fjarveru Birnu. Við lentum einnig í villuvandræðum en við létum það ekki á okkur fá og þrátt fyrir að leikmenn þurftu að taka á sig óvenjulegt hlutverk þá var það gert vel sem stóð upp úr að mínu mati,“ sagði Hörður Axel eftir leik.

Hörður var nokkuð brattur með fyrri hálfleik þar sem Keflavík var þremur stigum yfir í hálfleik.

„Mér fannst við vera flýta okkur sóknarlega sem endaði með töpuðum boltum. En við náðum að breyta því í seinni hálfleik sem varð til þess að Valur þurfti að bregðast við. Varnarlega vorum við flottar allan leikinn.“

Keflavík klikkaði á tveimur vítum á ögurstundu sem kom Val á bragðið og benti Hörður á að hann klikkaði sjálfur á mikilvægum vítum í síðasta leik. 

„Við klikkuðum á tveimur vítum sem gaf þeim tækifæri en ég klikkaði sjálfur á víti í seinustu viku og maður þarf að vera betri fyrirmynd fyrir stelpurnar,“ sagði Hörður Axel að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira