Skoðun

Nöktu föt keisarans og skæri demanturinn

Birna Guðný Björnsdóttir skrifar

Verkalýðshreyfingin er að berjast á mörgum vígstöðum þessa dagana og eins og áður þá sendi ég á þau orkuknús og óska þeim alls hið besta. Þau mega alveg fá að vita að það er fólk í samfélaginu sem stendur með þeim svo ef þú lesandi góður ert sammála mér, ekki hika við að senda á þau fallegar kveðjur og orkuknús. Jafnvel bara svona út í loftið ef þú hefur ekki tök á öðru, því baráttujaxlar þurfa líka stundum á því að halda að fá til sín góða strauma. En að allt öðru. Það hefur ekki mikið verið fjallað um eina helstu vígstöð baráttunnar og aðrir þættir hafa fengið að vera meira í sviðsljósinu. Mig langar til að beina kastljósinu að mikilvægi ríkisstjórnarinnar í kjaraviðræðunum.

Á Ársfundi atvinnulífisins hjá SA, nú um daginn, þá hélt hæstvirtur forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir ræðu. Þar ræddi hún um atriði sem hafa komið upp í aðdraganda kjaraviðræðna, þ.e. reiði meðal almennings um himinháar launagreiðslur stjórnenda og myndarlegar arðgreiðslur til eigenda. Hún taldi það mikilvægt að þeir sem eru í þeirri stöðu að geta tekið ákvarðanir myndu leggja sitt að mörkum til að stuðla að samfélagssátt. Þetta voru falleg orð og ég hreyfst með, því ég er sammála því að við verðum að reyna almennt að finna sátt í samfélaginu. Það sló þó niður þeim ótta hjá mér að ástæða fyrir því að hún væri að nefna þetta, yfir sal fullum af stjórnendum fyrirtækja, væri sú að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að grípa til neinna ráðstafana eða takmarkana til að ná samfélagssátt um þessi tvo veigamiklu þætti. Var hún þarna að kasta ábyrgðinni alfarið yfir á stjórnendur fyrirtækja eða ætlar hún að bera sjálf einhverja ábyrgð?

Katrín er kona sem hefur völd til að breyta. Hún hefur völd til að leggja fram lagafrumvarp sem setur takmarkanir á launagreiðslur og hún getur sett fram lagafrumvarp til að hækka skatt á arðgreiðslur. Og þó að þau frumvörp yrði væntanlega ekki samþykkt af aðal samstarfsflokknum Sjálfstæðisflokknum, þá eru líkur á að flest allir aðrir flokkar myndu taka undir slíkar breytingar. Mig langar til að trúa því að Katrín hafi siðferðisþrek til að standa með sínum skoðunum og sé tilbúin til að rugga bátnum til að ná fram samfélagssátt um jafnari dreifingu tekna innan samfélagsins. En ég er ekki viss. Hvað með þig lesandi góður, ert þú viss?

Hversu mikilvæg skyldi ríkisstjórnin annars vera í komandi kjaraviðræðum? Vill hún yfir höfuð vera þáttur í viðræðunum? Bjarni Ben hefur lýst því yfir, í viðtali við Fréttablaðið, að það sé mikill misskilningur að samningsaðilar eigi kröfu á ríkið í samningaviðræðum. Hann vill meina að það sé hlutverk atvinnurekenda og launþega að ná samkomulagi sín á milli um kaup og kjör. Hann segir að það sé alls ekki sjálfgefið að ríkið geri grundvallarbreytingar á opinberum kerfum vegna kjarasamningsviðræðna á almennum markaði. Bjarni Ben hefur sem sagt sett línurnar. Þetta hljómar smá eins og ríkisstjórnin vilji ekki hliðra til sinni dagskrá svo að aðilar geti gengið sáttir frá borði. Ef hún vill ekki vera hluti af samningsviðræðunum má þá segja að það sé ákveðið sinnuleysi í því? Á ríksstjórnin ekki að sýna þann sóma að vilja skapa hér virkt og farsælt samfélag í sátt við bæði atvinnufyrirtæki og launþega?

Yfirlýst stefna Bjarna Ben er í takt við framgang mála eftir síðustu kjaraviðræður. Þar gekk ríkisstjórnin frá borði, lofaði öllu fögru með lífskjarasamningi og stóð svo ekki við stóran hluta loforða sinna. Þetta er haft eftir Ragnari hjá VR, í pallborðssamtali Vísis og Stöðvar 2. Ragnar lýsti því yfir í samtalinu að ríkisstjórnin gæti vegna þessa ekki talist vera trúverðugur og traustur aðili til að setjast við borðið og tala í lausnum.

Minn skilningur (og samúð) er reyndar frekar mikill fyrir fólki sem er sífellt að lofa einhverju en getur svo ekki staðið við það. Ég er því miður sjálf sífellt að lofa alls konar hlutum sem ég ætla mér að standa við en svo kunna aðstæður að breytast, fjallið á borðinu mínu nær einhverra hluta vegna að stækka en ekki minnka og erfitt reynist að efna loforðin. En ég hef siðferðiskennd sem skammast og tuðar í mér undir þeim kringumstæðum og ég reyni mitt besta til að bæta mitt ráð. Ríkistjórnin virðist því miður ekki vera tilbúin að ræða það sem fór úrskeiðis, né ræða það hvernig má bæta úr aðstæðum. Maður hefur bara ekkert heyrt í henni eftir þessar alvarlegu ásakanir hjá Ragnari. Það er eitthvað sem mér finnst vera verulegur og alvarlegur siðferðisbrestur af hendi ríkisstjórnarinnar.

Mér finnst ríkisstjórnin sýna lítinn samstarfsvilja. Og ég spyr mig hvað skal gera þegar mótaðilinn sýnir lítinn sem engan samstarfsvilja? Hvað ef mótaðilinn er búinn að setja sér það samningsmarkmið að vera sá latasti í herberginu? Eru þá engar lausnir í sjónmáli? Ber þér þá að taka alla ábyrgðina á þínar eigin herðar til að leysa úr vandanum? Getur þú þvingað mótaðilann til að sýna samstarfsvilja ef ekki er hægt að virkja sómakennd hans? Eða hefur þú það frelsi að labba í burtu frá aðstæðunum og finna sjálfur lausnir á vandanum sem þurfa ekki samþykki mótaðilans?

Þegar menn lenda í síendurteknu siðleysi í samskiptum þá er a.m.k tvennt sem þeir geta gert. Hægt er að taka þátt í leðjuslagnum með fullum þunga, berandi uppi öll þau vopn sem hægt er að finna. Og í tilfelli þessarar ríkisstjórnar þá má finna vopn gegn þeim. Til að mynda þá eru fyrirtæki sem tengjst nánum ættingjum hæstvirts fjármálaráðherra fjölmörg. Hvað gerist ef verkalýðshreyfingin setur þau fyrirtæki á svartan lista hjá lífeyrissjóðunum? Hvað gerist ef lífeyrissjóðum er bannað að lána eða fjárfesta í þeim fyrirtækjum?

Hægt væri einnig hægt að banna lífeyrissjóðum að fjárfesta í ríkisverkefnum, þó það myndi eflaust vekja þó nokkra úlfúð. Fjárfesting í ríkisverkefnum sýnist mér vera einn stór blautur draumur hjá stjórnum lífeyrissjóðanna. Já, en það væri kannski smá fyndið að sjá hvort að ríkisstjórnin kæmi hlaupandi að samningsborðinu ef peningavaldinu yrði beitt gegn þeim.

Ef markmiðið er þess virði þá er leðjuslagur stundum nauðsynlegur. Og samningsmarkmið verkalýðshreyfingar í komandi kjaraviðræðum, sem tengjast ekki beint launakjörum, eru mikilvæg. En hvort að leðjuslagur sé fallegasta leiðin til að leita lausna, það er ég ekki viss um. Leðjuslagur tekur á líkama og sál og þegar margir blandast inn í málið þá er það kannski ekki rétta lausnin. Þegar fallegasta daman á ballinu er búin að láta mann skýrt vita að hún hafi ekki áhuga þá er kannski nauðsynlegt að stoppa, anda djúpt, líta í kringum sig og sjá hvort að það leynist ekki bara demantur í mannþyrpingunni sem hefði bara gaman af smá flörti. Og á meðan við einhleypu kellingarnar þurfum að vafra um í myrkrinu með stækkunarglerið leitandi að okkar demanti þá er demantur verkalýðshreyfingarinnar svo skær að það er ekki hægt annað en að taka eftir honum.

Það er kannski kominn tími til að við áttum okkur á því að þó það væri gott að fá ríkisstjórnina að samningsborðinu þá er það ekki nauðsynlegt. Ríkisstjórnin er ekki nauðsynlegur þáttur í lausninni. Ríkisstjórnin er kannski ekki svo mikilvæg. Verkalýðshreyfingin getur náð nánast öllum samningsmarkmiðum sem tengjast ekki launakjörum í gegnum lífeyrissjóðina. Í þessu litla lífkerfi sem við búum í þá eru allir háðir lífeyrissjóðunum. Lífeyrissjóðirnir eru stóri skæri demanturinn. Lífeyrissjóðirnir eru risinn sem enginn er að tala um og mér finnst að draga verði risann að samningaborðinu.

Hvernig er hægt að gera það? Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er skipuð 50% af SA og Félagi atvinnurekenda og 50% af VR. Atvinnurekendur ráða því til helminga yfir sjóðnum til móts við VR. Að þessu leiti þá þurfa atvinnurekendur ekki endilega að vera óvinur verkalýðshreyfingarinnar. Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur geta báðir notið góðs af því að draga lífeyrissjóði að borðinu. En ef það er ekki hægt að sannfæra atvinnurekendur um ágæti þess þá er hægt að finna aðrar leiðir.

Ef við viljum breyta fyrirkomulagi um stjórn sjóðanna þá verður að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. Þeir sem kjósa um breytingar eru því miður skipaðir til helminga af fulltrúum atvinnulífins til móts við fulltrúa VR. Ef það er ekki hægt að höfða til sómakenndar hjá einum af 25 fulltrúum atvinnulífsins, þá er spurning hvort að lausnin sé ekki að stofna bara nýjan lífeyrssjóð. Já ég sagði það. Það er nefnilega alveg til í dæminu að stofna nýjan lífeyrissjóð, sem gæti verið skipaður af stjórn sem væri 100% tilnefnd af verkalýðshreyfingunni.

Hvernig væri það? Hvern myndi það hræða? Að búa til nýjan lífeyrissjóð sem flest öll verkalýðsfélög myndu styðja. Það yrði nýr sjóður sem myndi fylgja stefnu verkalýðsfélaganna. Nýr sjóður sem myndi fá til sín 23 milljarða mánaðarlega og í leiðinni yrðu allir þessir lífeyrissjóðir sem hafa engan skilning á hugtakinu samfélagsleg ábyrgð, „cuttaðir“ út. Þeir geta haldið áfram að leika sér við peninginn sem þegar hefur verið greiddur til þeirra en þeir þyrftu svo að byrja að selja sitt fljótt til að geta greitt út til lífeyrisþega.

Ég er bjartsýn manneskja og ég held að við öll ættum að leyfa okkur að vera það. Bjartsýni til breytinga er einhverra hluta vegna alltaf talað niður, kannski því fólk er oft svo hrætt við öðruvísi hugarfar og öðruvísi lausnir. En við megum ekki gleyma því að breytingar geta leitt til góðs. Ég hef fulla trú á því að góðar breytingar séu mögulegar. Ef meetoo byltingin gat kennt karlmönnum að þreyfa ekki á rassi og brjóstum ókunnugra kvenna á skemmtistöðum, þá finnst mér bara ekkert ómögulegt hér í heimi. Ef við viljum breytingar á misskiptingu auðs þá getum við farið fram á þær breytingar og það sem meira er þá getum við náð þeim fram. Hugsum út fyrir boxið, finnum lausnir öllum almenningi til heilla og höfum trú á því að við getum náð fram góðum og farsælum breytingum.

Lesendur góðir. Megið þið njóta ástar og umhyggju í sál ykkar sem og frá sálum annarra. Takk fyrir mig.

Hér að neðan má finna fyrri greinar mínar, þar sem koma fram vangaveltur um viðfangsefni komandi kjarasamningsviðræða.

Ó Ragnar, ó bei­bí, ó bei­bí

Sykurpúða snillingurinn hann Ragnar

Vekjum risann, tökum upp spjótin

Hjartabankinn - banki allra launþega

Leigusali í kröppum dansi við músina

Elísabet, vínið og veikindin

Fundurinn hjá SAF og álagið

Höfundur greinar er launþegi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×