Handbolti

Þorsteinn Gauti: Frábært að ná að vinna Val

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þorsteinn Gauti Hjálmsson skoraði tíu mörk fyrir Fram í kvöld.
Þorsteinn Gauti Hjálmsson skoraði tíu mörk fyrir Fram í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, vinstri skytta Fram, átti stóran þátt í 37 – 34 sigri þeirra á Val í Úlfarsárdal í kvöld. Hann skoraði 10 mörk og var valinn maður leiksins í leikslok. Eðlilega var hann gríðarlega sáttur í viðtali eftir leik.

„Það var frábært að ná að vinna Val. Við vorum slappir í síðasta leik og fórum yfir fullt af atriðum og náðum að laga það í dag. Það skilaði sigri.“

Að mati Þorsteins var það frábær sóknarleikur sem skóp sigurinn. Varnarleikurinn var ekki eins góður.

„Sóknarleikurinn var heilsteyptari. Vörnin kannski ekkert svo góð, fengum á okkur 34 mörk. Flottur leikur heilt yfir, við vorum að fá framlag úr öllum hópnum. Kannski vorum við aðeins þolinmóðari og fjölbreyttari. Við vorum dálítið einhæfir, vorum að reyna gera þetta sjálfir,“ sagði hann og bætti við.

„Við vorum fjölbreyttari í sókn og opnari fyrir fleiri valmöguleikum.“

Þorsteinn sagðist hafa hitt vel á markið í dag og bætti tölfræði sína.

„Ég skýt alltaf mikið og í dag var ég bara að loksins að hitta. Ég var svekktur með sjálfan mig að vera með lélega tölfræði.“

Þorsteinn telur að meira flæði í sóknarleiknum hafi búið til fleiri og betri færi. Hann hrósaði einnig liðsfélaga sínum, línumanninum Marco Coric.

„Já klárlega, við vorum að fá betri færi. Það voru fleiri hlutir að vinna með okkur í dag. Marko var líka með fleiri mörk í dag. Það er stígandi í þessu. Þetta er langt mót.“

Hann telur sigurinn gefa þeim meira sjálfstraust fyrir framhaldið.

„Já klárlega. Núna kemur hlé á deildinni. Þá getum við haldið áfram okkar vegferð. Svo man ég ekki hvaða leikur er næstur. Fáum Einar þjálfara aftur í næsta leik. Það er skemmtilegt,“ sagði Þorsteinn að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.