Körfubolti

Jóhann Þór: Yrði risastórt fyrir okkur sem félag að fá hann heim

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Þór Ólafsson tók við Grindavík á nýjan leik í sumar.
Jóhann Þór Ólafsson tók við Grindavík á nýjan leik í sumar. Vísir/Anton

„Góður sigur, ég er mjög sáttur með þessi tvö stig. Þetta spilaðist ekkert eitthvað æðislega en tvö góð stig og við tökum það,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir sigur gegn KR í framlengdum leik í Subway-deild karla í körfuknattleik í kvöld.

Leikurinn var jafn og spennandi og í síðari hálfleik skiptust liðin á að hafa forystuna eftir að Grindvíkingar höfðu verið skrefinu á undan í fyrri hálfleik.

„Þetta var kaflaskipt, frammistaðan var köflótt. Við fengum stopp þegar við þurftum en það vantaði flæði sóknarlega,“ bætti Jóhann við en hann var ánægður með framlag David Azore, Bandaríkjamannsins í liði Grindavíkur.

„Hann spilaði mjög vel. Þetta er fyrsti leikurinn hans sem atvinnumaður og við erum bara mjög sáttir. Hann lofar góðu.“

Landsliðsmaðurinn Jón Axel Guðmundsson hefur æft með Grindavík að undanförnu og spilaði æfingaleik með liðinu um síðustu helgi. Hann var borgaralega klæddur á bekk Grindvíkinga í kvöld og er enn að vonast eftir því að fá samning erlendis. Á Jóhann von á því að Jón Axel spili með Grindavík í vetur?

„Það er voðalega erfitt að segja, hann er bara að skoða sín mál. Þetta er náttúrulega mjög góður leikmaður sem um ræðir og það yrði risastórt fyrir okkur sem félag að fá hann heim og fyrir samfélagið heima.“

„Við komum til með að gera það sem þarf til að fá hann ef hann er klár. Þetta er svolítið undir honum komið,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×