Körfubolti

Hnefahögg á æfingu NBA-meistaranna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jordan Poole og Draymond Green hafa spilað saman hjá Golden State Warriors undanfarin þrjú tímabil.
 Jordan Poole og Draymond Green hafa spilað saman hjá Golden State Warriors undanfarin þrjú tímabil. Getty/Ezra Shaw

Draymond Green, leiðtogi Golden State Warriors liðsins í NBA deildinni í körfubolta virðist enn á ný hafa gengið of langt í því að reka liðsfélaga sína áfram.

Green sló nefnilega til liðsfélaga síns Jordan Poole á æfingu Warriors liðsins í gær.

Nú styttist í að NBA-tímabilið hefjist á ný en Green og félagar unnu sinn fjórða meistaratitil á sjö árum í byrjun sumars. Það er augljóslega mikið kapp á æfingum liðsins ef marka má nýjust fréttirnar frá San Francisco.

Green og Poole höfðu verið að skjóta á hvorn annan allan æfinguna í gær sem endaði með að þeim lenti saman og við tóku hrindingar og einhver læti. Það var samt ekki nóg fyrir Green sem tók upp á því að slá til Poole.

Green hitti Poole en meiddi hann ekki og Poole hélt áfram og kláraði æfinguna. Green á væntanlega yfir höfðu sér refsingu vegna atviksins.

Poole er 23 ára gamall og níu árum yngri en Green. Hann hefur bætt sig á hverju tímabili með Golden State en síðasta tímabil var hans þriðja. Poole skoraði 8,8 stig í leik á fyrsta ári, 12,0 stig í leik á öðru ári og var síðan með 18,5 stig og 4,0 stoðsendingar í leik á síðasta tímabili.

Green er þekktur fyrir að drífa liðfélaga sína áfram og hefur oftar en ekki lent í smá útistöðum við leikmenn sem hefur þótt hann ganga of langt. Eitt þekktasta dæmið var Kevin Durant í miðri úrslitakeppni um árið.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.