Körfubolti

Kristjana: Sendum beiðni þann 20.júní um að færa þennan leik en KKÍ sagði nei

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristjana Jónsdótitr er þjálfari Fjölnis í Subway-deild kvenna.
Kristjana Jónsdótitr er þjálfari Fjölnis í Subway-deild kvenna. Vísir/Hulda Margrét

„Við þurfum klárlega að stíga upp varnarlega, við vorum góðar í vörn í síðasta leik en þetta hefur háð okkur í þessum tveimur leikjum sem við höfum tapað. Þegar við spilum góða vörn þá vinnum við, svo einfalt er þetta,“ sagði Kristjana Jónsdóttir þjálfari Fjölnis eftir tap gegn Njarðvík í Subway deild kvenna í kvöld.

Fjölnir var að elta nær allan leikinn í kvöld en misstu Njarðvíkurliðið aldrei almennilega frá sér fyrr en í fjórða leikhlutanum. Kristjana var ósátt með hvað hennar leikmenn gáfu Njarðvík mörg færi á sóknarfráköstum.

„Þær eru að ná í alltof mörg stig eftir sóknarfráköst, ég held að þær hafi skorað einhver 16 stig eftir sóknarfrákast og það er leikurinn.“

Fjölnir náði að minnka muninn í fjögur stig í seinni hluta þriðja leikhluta en Njarðvíkurliðið var fljótt að svara og snemma í þeim fjórða var munurinn orðinn tuttugu og eitt stig.

„Við gerðum ekki nógu vel þar, við hefðum átt að gera betur. Það eru klárlega framfarir á liðinu. Við vorum töluvert betri sóknarlega og það var mikið betra flæði. Taylor (Jones) kemur inn með þvílíkan kraft sóknarlega en okkur vantar leikmann sem tók sextán fráköst og skoraði sextán stig í síðasta leik,“ sagði Kristjana og fór yfir ástæður fjarveru hinnar austurrísku Simone Sill.

„Hún er í FIBA landsliðsverkefni. Við sendum beiðni um að færa þennan leik 20.júní og spila hann síðasta laugardag því hún var að fara út en KKÍ sagði nei,“ sagði Kristjana og var augljóslega ekki sátt.

„Þeir segja að þetta sé ekki eitt af mótunum sem þeir þurfa að taka tillit til. Við vildum ekki standa í vegi fyrir því að hún færi í landsliðsferð. Ég var ekki sátt og ég margreyndi að færa þennan leik. Hún skilar miklu framlagi, er sterkur póstur hjá okkur og svo hefur þetta áhrif á breiddina okkar, “ sagði ósátt Kristjana Jónsdóttir að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×