Innlent

Vilja raf­rænt kerfi til að fylgjast með slæmri birgða­stöðu lyfja

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rúna Hauksdóttir forstjóri Lyfjastofnunar segir stöðuna áhyggjuefni.
Rúna Hauksdóttir forstjóri Lyfjastofnunar segir stöðuna áhyggjuefni. Vísir/Vilhelm

Forstjóri Lyfjastofnunar segir áhyggjuefni að aðeins mánaðarbirgðir séu af almennum lyfjum hjá birgjum í landinu. Koma þurfi upp rafrænu kerfi til að fylgjast með birgðastöðu hverju sinni.

Starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins birti í gær skýrslu um neyðarbirgðir í landinu. Fram kemur í skýrslunni að aðeins séu til mánaðarbirgðir af almennum lyfjum og tveggja mánaða birgðir af samningsbundnum lyfjum hjá birgjum í landinu.

„Þetta er auðvitað hlutur sem EES-löndin hafa áhyggjur af og þess vegna hafa þau lagt áherslu á að það sé komið upp neyðarlista eða lista yfir neyðarlyf og magni í hverju landi fyrir sig. Það er það sem er að gerast hér á Íslandi, hjá okkur og í samráði við Landspítalann og Embætti landlæknis. En þetta er áhyggjuefni hjá okkur eins og öllum EES löndunum,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. 

Íslendingar þurfa nú að stórum hluta að reiða sig á innflutning lyfja frá Evrópu en framleiðsla evrópskra lyfja hefur í auknum mæli færst til Indlands og Kína. Það setur því íslenskan lyfjamarkað í viðkvæma stöðu, sérstaklega þar sem hann er skilgreindur sem örmarkaður.

„Landið getur ekki framleitt öll lyf, það er alveg ljóst. Það er hér lyfjaframleiðsla í landinu en þú hins vegar grípur ekki alveg strax í það. Það þurfa náttúrulega að vera til hráefni, það þarf þekkingu og búnað en við getum ekki framleitt öll lyf hér,“ segir Rúna. 

„Það er lyfjaframleiðsla í landinu sem er hægt að grípa til en það er í mesta lagi í töfluformi.“

Eitt af mikilvægustu atriðunum sé að koma upp rafrænu kerfi þar se hægt sé að fylgjast með birgðastöðu í landinu hverju sinni.

„Það sem væru kjöraðstæður væri að hverju sinni myndum við hafa rafrænt yfirlit yfir birgðastöðu í landinu þegar kæmi upp neyð. Það höfum við ekki og svo er mikilvægt að við höfum heimildir til að stýra birgðahaldinu svo verði jöfn birgðadreifing í landinu.“

Skoða má skýrslu um neyðarbirgðir í skjalinu hér að neðan. 

Tengd skjöl

Lyf


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×