Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - ÍBV 31-31 | Jafnt í háspennuleik í Suðurlandsslagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Einar Sverrisson var markahæsti maður vallarins í kvöld með tíu mörk.
Einar Sverrisson var markahæsti maður vallarins í kvöld með tíu mörk. Vísir/Hulda Margrét

Selfoss og ÍBV gerðu 31-31 jafntefli er liðin mættust í háspennuleik í fjórðu umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld.

Eins og svo oft áður þegar þessi lið mætast þá var mikið fjör í Set-höllinni á Selfossi í kvöld. Liðin skiptust á að skora og lítið sem ekkert get skilið þau af í upphafi leiks.

Selfyssingar virtust þó hálfu skrefi framar lengst af í hálfleiknum og Eyjamenn voru að elta. Selfyssingar náðu þó aldrei meira en tveggja marka forskoti og ekki endilega hægt að segja að heimamenn hafi verið betri aðilinn í fyrri hálfleik.

Það dró þó heldur betur til tíðinda á 25. mínútu leiksins þegar Einar Sverrisson kom Selfyssingum í 10-9, enda var þetta hans þúsundasta mark fyrir félagið í opinberum keppnisleikjum. Stúkan í Set-höllinni lét vel í sér heyra og starfsmenn Selfossliðsins höfðu útbúið sérstaka mynd af Einari sem birtist á stigatöflunni þegar boltinn söng í netinu.

Selfyssingar héldu áfram að leiða það sem eftir lifði hálfleiks og þeir náðu aftur upp tveggja marka forskoti þegar um sjö sekúndur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Eyjamenn tóku þá leikhlé, en náðu ekki að nýta lokasóknina og staðan var því 13-11 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var svo ekki minna spennandi en sá fyrri. Eyjamenn voru fljótir að jafna metin á ný og við tók sami eltingaleikur og í fyrri hálfleik.

Gestirnir frá Vestmannaeyjum náðu forystunni í fyrsta skiptið í leiknum í stöðunni 15-16 þegar um fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum, en Selfyssingar snéru taflinu sér í hag á ný stuttu síðar.

Svona var þetta allan síðari hálfleikinn. Liðin skiptust á að skora og fyrir utan fyrstu mínútur hálfleiksins varð munurinn á liðunum aldrei meiri en eitt mark.

Einar Sverrisson í liði Selfyssinga og Rúnar Kárason í liði Eyjamanna tóku nánast öll völd á vellinum og skoruðu hvert markið á fætur öðru. Einar endaði leikinn með tíu mörk og Rúnar átta, en varnarleikur beggja liða fauk út um gluggann í síðari hálfleik og svo virtist sem menn gætu skorað að vild.

Selfyssingar komust í 31-30 þegar um tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum, en Eyjamenn jöfnuðu metin stuttu síðar þegar Elmar Erlingsson skoraði úr víti sem Vilius Rasimas var hársbreidd frá því að verja.

Liðin fengu sitthvora sóknina til að stela sigrinum á lokamínútunni, en báðum liðum tókst að tapa boltanum og niðurstaðan því 31-31 í algjörum háspennuleik á Selfossi. 

Af hverju varð jafntefli?

Það vill nú oft verða þannig þegar þessi lið mætast í Olís-deildinni í handbolta að úr verði jafnir og spennandi leikir. Sú varð klárlega raunin í kvöld og hefði sigurinn getað fallið hvorum megin sem er. Bæði lið voru klaufar í lokasóknum sínum og úr varð jafntefli, sem undirritaður telur bara vera sanngjarna niðurstöðu.

Hverjir stóðu upp úr?

Að öðrum ólöstuðum voru það Einar Sverrisson og Rúnar Kárason sem voru fremstir meðal jafningja í kvöld. Eins og áður segir skoraði Einar tíu fyrir Selfyssinga og Rúnar átta fyrir Eyjamenn og á tímabili í síðari hálfleik var allt inni hjá þeim félögum.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur beggja liða var nokkuð sterkur í fyrri hálfleik og voru aðeins skoruð samtals 24 mörk fyrir hlé. Varnarleikurinn var hins vegar í öðru sæti í síðari hálfleik þar sem Eyjamenn einir  skoruðu 20 mörk og Selfyssingar 18. Markvarsla beggja liða var líka hálf slöpp í síðari hálfleik og ef annar markvörðurinn hefði dottið í stuð í smá stund hefði útkoman verið allt önnur.

Hveð gerist næst?

Bæði lið mæta Herði frá Ísafirði í sínum næstu deildarleikjum. Eyjamenn fá Hörð í heimsókn núna strax á sunnudaginn klukkan 14:00 í leik sem átti að fara fram í fyrstu umferð, en Selfyssingar fara vestur á firði á laugardaginn eftir viku.

Erlingur: Kannski vorum við bara að stilla upp í aðeins of flókið kerfi í lokin

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV.Vísir/Hulda Margrét

„Sóknarlega var þetta ágætt. Við skorðum 31 mark og erum að gera það ágætlega. Varnarlega fannst mér við geta verið sterkari og hefðum líka getað fengið fleiri bolta varða. Það er svona eitthvað sem hefði getað nýst okkur betur ef sú tölfræði hefði verið betri,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, að leik loknum.

Þrátt fyrir það að Erlingur tali um slappan varnarleik í kvöld þá spiluðu bæði lið nokkuð öflugan varnarleik í fyrri hálfleik.

„Það er kannski erfitt að reyna að átta sig á því hvernig þessi leikur þróaðist svona strax eftir leik. Í seinni hálfleiknum voru liðin kannski að skora of auðveldlega.“

Þrátt fyrir að lenda aldrei meira en tveimur mörkum undir í kvöld voru Eyjamenn að elta Selfyssinga stærstan hluta leiksins. Gestirnir fengu þó tækifæri til að stela sigrinum í lokasókninni, en Erlingur lítur ekki á þetta sem tapað stig þó sú sókn hafi farið forgörðum.

„Nei alls ekki. Það er bara alltaf erfitt að spila hérna á Selfossi og eitt stig hér er bara mjög gott. Ég er sáttur með það en auðvitað væri frábært ef það væri alltaf dæmt útaf þegar hornamaður stígur útaf, ekki bara svona í lokin,“ sagði Erlingur og á þá við boltann sem dæmdur var af hans mönnum í lokasókn ÍBV.

„Það vantar að fylgja þessari reglu oftar eftir, ekki bara núna í síðasta færinu okkar. En kannski vorum við bara að stilla upp í aðeins of flókið kerfi í lokin. Svo bara eitt sem ég vil bæta við að yfirtalan okkar var slök í leiknum.“

Eyjamenn taka á móti Herði frá Ísafirði næstkomandi sunnudag í fyrsta skipti í sögu efstu deildar í handbolta. Erlingur segist spenntur fyrir því að fá Ísfirðingana í heimsókn og hrósaði þeim fyrir þá uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað.

„Það er bara virkilega skemmtilegt að fá Ísfirðinga í heimsókn. Þeir eru búnir að vinna frábært starf og eru enn að styrkja liðið. Það er mikill metnaður þarna og þetta verður bara virkilega verðugt verkefni að taka á móti þeim.“

„Að sama skapi munum við taka vel á móti þeim og það verður virkilega gaman að fá þá í heimsókn,“ sagði Erlingur að lokum.

Þórir:

Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss.Selfoss

„Það eru svona blendnar tilfinningar eftir þennan leik. Mér fannst við gera þetta helvíti vel á köflum og ég er auðvitað svekktur að ná bara öðru stiginu, en að sumu leiti bara ánægður að fá stigið eins og þetta þróaðist,“ sagði Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga í leikslok.

„Fyrirfram er ÍBV með betra lið en við og þeim er spáð ofar og allt það. En við vitum það að með góðum leik þá getum við unnið öll lið og gerum atlögu að því í hverjum leik.“

„Varnarleikurinn í fyrri hálfleik var frábær og Vilius [Rasimas] þar fyrir aftan. Svo klikkaði það og við fáum á okkur 20 mörk í seinni hálfleik sem er allt of mikið. Sóknarleikurinn í heildina var virkilega góður og agaður og ég er mjög ánægður með það.“

Selfyssingar fengu nokkur tækifæri undir lok leiksins til að koma sér aftur í tveggja marka forystu og gera þannig mögulega út um leikinn. Þórir segist þó ekki endilega hafa skýringar á því hvað hafi klikkað á þeim tímapunktum.

„Þetta var svo sem bara stál í stál og gat endað hvorum megin sem var. Það voru bæði lið að berjast og þetta var örugglega frábær leikur fyrir áhorfendur. Hvað það var sem klikkaði í þessum sóknum, ég bara veit það ekki. Ég þarf bara að kíkja á þetta aftur.“

Eins og áður hefur komið fram þá átti Einar Sverrisson stórleik fyrir Selfyssinga og skoraði tíu mörk í kvöld. Hans fjórða mark í leiknum var hans þúsundasta fyrir Selfoss í opinberum keppnisleikjum, en Þórir segir það ekki endilega hafa verið uppleggið að gefa Einari eitthvað sérstakt skotleyfi til að rjúfa þúsund marka múrinn.

„Nei alls ekki. Ég vissi ekki af þessu fyrr en bara stuttu fyrir leik. En þetta er bara frábært fyrir Einar að ná þessum áfanga og við erum bara mjög stoltir af honum,“ sagði Þórir að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira