Skoðun

ADHD, spítt og klám

Gunnar Dan Wiium skrifar

Ég las vel skrifaða grein eftir doktorsnema í heila-, hugarstarfsemi og hegðun í dag. Greinin samanstóð af samantekt rannsókna um það sem hún kallaði verndandi áhrif ADHD lyfja. Titill greinarinnar spurði hún spurningarinnar um hvort að skoðanir fólks á ADHD lyfjum væru byggðar á rannsóknum, og ég geri þá ráð fyrir átt sé við klinískar rannsóknir. Í greininni vísar hún svo í rannsóknir sem sýna lækkandi tíðni á hinu og þessu hræðilegu sem gæti komið fyrir mig á lífsleiðinni með hjálp ADHD lyfja. Allt mögulegt týnt til eins og slysahætta, ofbeldi, dánartíðni, glæpatíðni, vímuefnamisnotkun svo eitthvað sé nefnt.

Virkilega vel gerð samantekt þar sem ég gat svo klikkað á link á hverri einustu rannsókn sem sýndi fram á þennan betri heim samkvæmt tölfæðinni.

Mig langar hinsvegar að reyna að nálgast þetta aðeins frá annari átt og ætla þá að reyna að vera ekki hvass og hrokafullur eins og ég á til og þá sérstaklega í ljósi þess eins og doktorsneminn skrifar í sinni grein sinni þá er ekki félagslega samþykkt að láta í ljós kynþáttarfordóma eða að segja við maneskju í hjólastól að hún þurfi ekki hjólastól, það væri ljótt að segja svoleiðis. Ekki það að mér finnist að það sé hægt að líkja vitundarástandinu ADHD við lömun eða að einstaklingar með greint ADHD ástand teljist til sérstaks kynþáttar sem sæta þurfi fordómum frá manni eins og mér sem gæti asnast til að ranta um það á spennandi hátt á Twitter eins og hún bendir svo snilldarlega á í inngangi greinar sinnar.

Ég man mjög gloppótt eftir æsku minni, ég tengi minningar mínar við hvar ég bjó því ég flutti mikið, þá innan hverfis sem og á milli hverfa. Ástæðan fyrir þessu minnisleysi mínu kemst ég næst því að álykta að ég hreyfði mig og hugsaði of hratt miðað við heiminn. Það er sem hausinn á mér hafi alltaf verið útum allt á sama tíma. Þessa sprengda athygligáfa eða geta gerði það auðvitað að verkum að ég átti erfitt með nám. Ég var alls ekki algjör tossi eins það var og hét í þá daga en þurfti virkilega að hafa fyrir því að tolla í eða undir sjöum í flestum fögum. Þessu ástandi fylgir gríðarlegt álag á allt kerfið og þá sérstaklega ótti og kvíði. Kvíðinn gerir það svo að hugurinn fer að taka en verr á móti upplýsingum því hann heldur svo fast í hugmyndina sem hann þegar býr yfir. Það að vita stöff fyrir kvíðin dreng er eins og hafa stjórn í annars stjórnlausum heimi svo þessi yfirfulli lager af stöffi rúmar ílla nýjar upplýsingar. Ég fann mig snemma í að horfa á bíómyndir, ég fann að það róaði mig niður. Athyglin varð njörfuð niður í eitthvað afmarkað sem ég hafði tök á. Það voru náttúrulegar engir símar eða neinir tölvuleikir af neinu ráði á þessum tíma en VHS var útum allt.

Þegar ég lít til baka og íhuga á söguna, rannsaka, sé ég að ég þjáist af boðefnaskort. Hvort það sé orsök sprengdar athygli veit ég ekki en snemma sækist ég í allt sem framleiðir boðefni. Ég fer að detta í fantasíur varðandi stelpur mjög ungur og það að vera skotin í stelpu verður mjög snemma hjá mér að sterkum þráhyggjuhugsunum. Sú þráhyggja var svo leyst af með klámi þegar kynhvötin vaknaði og var það fyrir mér í 3 áratugi viss boðefnasprengja, engin athyglisbrestur í klámi, það er eins einbeitt og hægt er fyrir þá sem þekkja. Áfengi kom inn ásamt THC og það sem þessi lyfefni gerðu fyrir mig var að veita mér þessa tímabundnu lausn undan að vera í þessum hrærigraut af öllu. Lyfefnin færðu mér áður óþekkta gleði og samkennd með meðbræðrum mínum og systrum en svo rann af mér víman og allt varð eins nema örlítið verra. Ég segi oft við fólk oft þegar talið berst að því að fara í blackout að mér líði eins og að ég hafi rankað við mér úr hálfgerðu blackout eftir að ég byrjaði að drekka og reykja THC, eða með öðrum orðum þegar ég fór að meðhöndla ástandið sem myndi klárlega hafa verið greint sem ADHD á sínum tíma. Fyrir rælni og klíkuskap var ég sendur í Versló, þar átti ég að verða að manni en ég átti ekki séns í það. Námið var mér allt of þungt. Ég man að ég sat þessa tíma og hlustaði á kennarana í tímum og heyrði ekkert hvað þeir sögðu, varirnar hreyfðust en ekkert hljóð, bara mombó jombó. Laxdæla ásamt hagfræði og language of bissness gerðu út af við mig og um jólin féll ég í öllum fögum nema vélritun og íþróttum. Skýrast dæmið um athyglisbrestinn var Laxdælan. Ég las þetta eða einna heldur reyndi að lesa þetta, þennan texta aftur og aftur og þetta var bara ekki fræðilegur. Ég hefði aldrei getið meðtekið þessar upplýsingar þótt þetta hefði verið teiknað upp fyrir mig á bíótjald.

Það að geta ekki lært hefur áhrif á sjálfsmyndina. Manni fer að líða minni máttar. Samfélagið sýnir mér afreksfólk í öllum sviðum og þar myndast afstaðan, viðmiðið. Ég er ekki nógu góður, nógu flottur, nógu klár, nógu skemmtilegur, frjáls, hávaxin, fitt, nógu þetta og nógu hitt. Allt út af því að ég virðist ekki geta fokking einbeitt mér og meðtekið upplýsingar, sett þær á retta staði og unnið úr þeim. Tileinkað mér eitthvað sem mér finnst kannski ekkert endilega áhugavert eða skemmtilegt, allt út af ADHD myndi maður segja í dag. Mér leið aldrei eins og mér fannst aðrir líta út. Í þessa daga var ekkert boðið upp á greiningar eða neitt því umlíkt. Þú bara annaðhvort stóðst þig og varst frábær eða að þú stóðst þig ekki og svo var eitthvað þarna á milli sem maður vissi ekkert hvað maður átti að gera við.

Þessi einkenni sem ég er að upplifa þarna sem barn og unglingur og jú, langt inn í fullorðins árin eru aðeins einkenni. Ég þarf engar klínískar rannsóknir til að segja mér það. Mínar rannsóknir hafa staðfest það fyrir mér og eru hér með ekki kynntar sem skoðanir heldur raunveruleg reynsla sem unnið hefur verið úr. Einkenni þessi eru orsökuð af tengslarofi og er ég ekki bara að vísa í tengslarof sem ég upplifi gagnvart mínu nánasta fólki heldur ákveðið innra tengslarof. Það er sem ég sé ekki víraður rétt að innan sem sviptir mig aðgengi að anda eða rými. Við erum ekki bara efni, líkami, boðefni, hormónar og hugsanir. Það er svo miklu meira sem hefur með rými og anda að gera. Hugsanir í rými gera athyglinni kleyft að ferðast 360 gráður og velta steinum. To conenplate eða to ponder er þýðing á hugtakinu meditation og sá sem hugleiðir, íhugar á viðfangsefnið gerir úvinnsluna mögulega. Móttekur upplýsingar og vinnur úr þeim, tileinkar sér þær því reynsla eða upplifun hefur átt sér stað, maðurinn eignar sér upplýsingar og það sem maðurinn lærir verður hluti af því sem maðurinn veit og skilur. Þetta sé ég í dag en átti auðvitað ekki séns á að sjá sem barn og unglingur. Það var heldur engin sem sagði mér þetta, þau sem ólu mig upp, skólakerfið, fermingarfræðslan, fokking Vatnaskógur, engin sagði mér hvað vantaði í vitund mína. Það var engin sem tók mig og veitti mér aðgang að taugakerfinu sínu. Ég hefði þurft leiðsögn hvað varðar núvitund, hjálp, ég hefði þurft ró, stöðuleika, heilbrigt matarræði, tómstundir, tengsl, minna sælgæti og allskonar. Ég er ekki að plammera foreldra mína að neinu leiti, mér þykir mjög vænt um foreldra mína og allir gerðu sitt besta, einnig trúi ég því að ég hafi valið mér foreldra í algjöru samræmi við hvað þurfti til því hér er ég vaknaður til vitundar um að ég er guðleg vera í efnishjúp í eitt lífskeiðið enn.

Um daginn skrifaði einhver tvítari færslu sem gerði fullt af fólki reitt og brjálað. Hann sagði að eitthvað á þá leið að ADHD lið á svokallaðri viðeigandi lyfjagjöf væru í raun bara á spítti. Hann var tekin fyrir á komentakerfum og skrifað var um hann á ölllum helstu fréttamiðlum landsins bara útaf því að hann sagði eitthvað sem ógnaði risastórri hugmyndafræði. Hugmyndafræðinni um að spítt sé ekki það sama og þau efni sem gefin eru við ADHD. En þegar ég les um virkni Methylphenidate sem selt er undir nöfnunum Rítalín og Concerta sé ég nákvæmlega það það sama og undir lýsingum Amfetamíns þó svo að stimplaða stöffið sé hreint og hárfínt á meðan Amfetamínið sé kúkkað og allskonar af kúrekum undir daufri birtu. Þegar Amfetamín kom inn í líf mitt breyttist allt. Amfetamín losaði í mér boðefni. noradrenalín, dópamín og serótónín og ég öðlaðist undireins einbeitingu, velíðan og ró sem ég hafði ekki upplifað áður. Og það sem kom mér á óvart var þessi stadíska ró því ég hélt að ég ætti að verða æstur og spíttaður en það gerðist ekki nema þegar ég kannski þegar ég hafði dælt í mig of miklu magni. Amfetamín gaf mér eitthvað sem ég hafði ekki upplifað áður og ekki bara einbeitingu og kraft heldur varð ég frjór og fullur sköpunar. Ég varð allt þetta sem mig hafði skort þartil ég varð það ekki lengur og allt snérist upp í andhverfu sína. Ég fór að upplifa skerta einbeitingu og athygli, kvíða, svefnleysi og ranghugmyndir. Þessi sveifla endaði í algjörri kulnum og ég brann yfir um bókstaflega. Tilfinningarlíf mitt fór stórkostlega úr skorðum en úr þessum rústum hófst bataferðarlag mitt sem nú hefur staðið í yfir 6 ár.

Málið er að á bakvið hverja einustu pillu er sala. Lyfjafyrirtækin vilja að skorturinn sem við upplifum sé flokkaður sem sjúkdómur eins og á bakvið ADHD sé einskonar vírus eða baktería og það væri ekkert í fyrsta skiptið sem sú skilgreining væri reynd. Fyrir einni öld eða svo voru geðlæknar, heila og hugsérfræðingar önnum kafnir við að finna bakteríusýkinguna sem olli geðsjúkdómum með viðeigandi aðferðum eins og tann, framheila og líffæranámi svo einhver vitleysan sé nefnd. Það er talað um að skoðanir megi ekki byggja á neinu öðru en rannsóknum og svo er þeim hent fram í hrönnum en hvað segja þær annað en að lýsa hegðunarmynstri þeirra sem hafa fengið greininguna og fá lyfin sem og þeir sem fá greininguna og fá ekki lyfin. Þetta er bara tölfræði og 100% rétt út frá gefnum forsendum, en hvar eru rannsóknirnar sem segja til um uppruna ADHD, rannsóknir sem segja okkur hvað veldur þessu ástandi? Það eru getgátur um félagslega mótun sem og erfðafræðilegar orsakir en allt eitthvað sem aðeins bendir til. Það bendir allt til þess að ADHD sé arfgengt eins og líkamshæð og hárlitur þó svo að ekkert í raun geti staðfest það annað en líkur út frá gefnri tölfræði. Málið er að við vitum ósköp lítið og því brjálæðislegur akademískur hroki að halda því fram að fólk, venjulegt fólk geti ekki myndað sér skoðanir í þessum efnum með reynslu eins og sér. Þessi akademíski hroki er náttúrulega ekkert nýr af nálinni og ekkert virðist hann minnka þótt svo að vísindin eigi með réttu að taka hugmyndir og niðurstöður með algjörum fyrirvara í hvert sinn. Það er engin sem rannsakar þann sem rannsakar nema þegar litið er tilbaka og vitleysan skoðuð í sögulegu samhengi. Menn og konur fóru alveg í doktorsnám fyrir 200 árum og framkvæmdu hvert voðaverkið á fætur öðru og allt í nafni vísinda og lýðheilsu. Ég vill þó taka það fram að ef ekki fyrir læknavísindin væri ég sem rita eflasut látin ungur að aldri eða í besta falli lamaður eftir sprungin og sýktan hrygg. Ég ber mikla virðingu fyrir læknavísindum og öllu tæknifólki sem gerir hvert kraftaverkið og hverja kraftaverka uppgvötvuna á fætur annari en ég læknaði sjálfan mig af ADHD, ég læknaði sjálfan mig af bipolar, ég læknaði sjálfan mig af alkóhólisma. Ég læknaði sjálfan mig því í raun erum við öll læknar, við höfum kraft og úrræði til að heila og skilja og greina og breyta.

Mig langar að aðeins að enda á smá lýsingu á hvað ég gerði til að læknast af skapgerðareinkennunum ADHD. Og þegar ég meina að læknast af ADHD þá meina ég að ég þurfti að ná mér í náttúruleg boðefni eins og noradrenalín, dópamín og serótónín. Til að byrja með þurfti ég að komast í skilning um að þessi hugmyndarfræði mín um tafarlausa umbun og undantekningarlausa vellíðan var ekki að virka. Lífið er fullt af allskonar og það er þjáning. Þjáningin er í lífi mínu sem vegvísir að eindum sem sitja innra með mér eftir brot sem framin hafa verið á mér sem og afleiðingar brota sem ég hef framið á öðrum, með öðrum orðum þurfti ég að horfast í augu við hver ég var og hvað ég hafði gert sjálfum mér og öðrum. Ég þurfti göfga andan inra með mér því eins og ég sagði hér að ofan þá er ég ekki bara húð, vöðvar, bein, boðefni, tár og slef. Ég er vitund sem er svo takmarkarlaus að orðin gera ekkert nema skemma lýsinguna. Ég þurfti að takmarka hegðun sem felur í sér að ég mata mig af rusli, tikk tokk, Instagram og allt þetta tilgangslausa skroll. Ég þurfti að taka svefninn minn í gegn og minnka koffín og sykur ásamt unninni matvöru. Ég þurfti að rífa mig upp á rassgatinu og fara að hreyfa mig, sjósund, lyfta þungu drasli og hjóla. Slá grasið berfættur, klappa kisum og leita eftir leiðum til góðverka, þjónusta meðbræður mína og systur. Ég þurfti að kyrja möntrur, sitja í nokkuð margar mínutur á dag og þjálfa athygli með andardrátt. Biðja til guðs um leiðsögn og fyrst og fremst um kraft og hugrekki til sitja í sjálfum mér í bliðu og stríðu. Sitja í sjálfum mér í þjáningu, sorg og þunglyndi. Upplifa eyrðarleysið sem gerir mig sköpunarglaðan. Rækta tengsl við fólkið mitt, horfa í augun á konunnni minni og kyssa hana á hálsinn, horfa í augun á stelpunni minni og veita henni athygli, tala við hana, hlusta á hana, fylgja henni í skólan, hjálpa til með heimalærdóm, leggja frá mér síman og tengjast fólki, tengjast náttúrunni innra með mér sem og utan.

ADHD-kvíðastilli-SSRI-, öll þessi lyf eru sett á markað ekki til að lækna heldur aðeins til að setja tímabundin plástur á einkenaknippi hins raunverulega sjúkdóms. Þau virka vel þar til þau hætta að virka og þá vellur þetta í allar áttir og sýkingin dreifir sér. Þessi ofangreindu orð eru ekki bara skoðanir heldur mín reynsla byggð á margra áratuga sársaukafullum rannsóknum og innsæileiftrum. Ég vitna í engar heimildir nema í orð mín sem eflaust eru flestum ómarktæk og einskins nýt. Megi mátturinn vera með okkur og lifi bylting kærleika og samkenndar.

Höfundur starfar sem smíðakennari og er þáttastjórnandi hlaðvarpsins Þvottahúsið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Creditinfo

Daníel Freyr Rögnvaldsson skrifar

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.