Talsvert hefur verið rætt um líkamlegt ástand Hardens undanfarin tvö ár en það þykir ekki sæma einum besta körfuboltamanni heims.
Harden hefur greinilega tekið sig taki og á blaðamannafundi sagðist hann hafa lést um hvorki meira né minna en 45 kg. Joel Embiid, stjörnumiðherji Sixers, sem sat við hlið Hardens á blaðamannafundinum skellti upp úr þegar samherji hans sagði frá þessu.
Þótt Harden hafi að öllum líkindum ýkt þyngdartap sitt verulega virðist hann vera mun léttari en á síðasta tímabili. Honum var skipt til Sixers frá Brooklyn Nets í febrúar í staðinn fyrir Ben Simmons.
Harden, sem er 33 ára, skoraði 21,0 stig, tók 7,1 frákast og gaf 10,5 stoðsendingar að meðaltali í 21 leik með Sixers á síðasta tímabili. Í úrslitakeppninni var hann með 18,6 stig, 5,7 fráköst og 8,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.