Körfubolti

Ár­mann fékk loks að fara á æfingu í Laugar­dals­höll: „Vonandi er þetta komið til að vera“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fyrsta æfingin í tvö ár fór fram í Laugardalshöll í dag.
Fyrsta æfingin í tvö ár fór fram í Laugardalshöll í dag. Vísir/Sigurjón

Fyrsta íþróttaæfingin í tvö ár fór fram í Laugardalshöll í dag eftir langvinnar framkvæmdir á húsnæðinu. Frekari vinnu er þó þörf í aðstæðum barnastarfs í Laugardal.

Körfuknattleiksdeild Ármanns er sú stærsta á höfuðborgarsvæðinu og hefur missirinn af Laugardalshöll því reynst félaginu erfiður. Liðið hefur þurft að æfa í smáum húsum í Laugarnes- og Langholtsskóla auk íþróttahúss Kennaraháskólans sem er utan hverfisins sem Ármann þjónustar.

Oddur Jóhannsson, yfirþjálfari Ármanns.Vísir/Sigurjón

Oddur Jóhannsson, yfirþjálfari hjá Ármanni segir erfiða tíma að baki: „Tveggja ára bið og búin að vera rosaleg eftirvænting að komast hingað inn. Mikil tilhlökkun í öllum. Lýst mjög vel á höllina, lítur vel út eins og við sjáum. Þetta verður frábært þegar við fáum að vera hérna inni.“

Aðspurður hvort þetta sé ekki búið að vera bölvað hark þá stóð ekki á svörum: „Algjört neyðarástand, alveg hræðilegt hjá okkur í rauninn. Við erum glöð að vera loksins komin aftur og geta haldið áfram með starfið. Það hefur haldist gangandi en með herkjum, það hefur verið erfitt síðustu tvö ár. Vonandi er þetta komið til að vera.“

„Betur má ef duga skal“

„Þetta mun umturna starfsemi félagsins. Félagið er nú þegar stærsta körfuknattleiksdeild Reykjavíkur og sú næststærsta á landinu. Þannig að betur má ef duga skal í íþróttahúsamálum, þetta er bara brot af okkar starfsemi sem fer hérna inn.“

„Þetta er gífurlegur munur og nær að setja okkur aftur nær eðlilegri starfsemi en þetta er bara plástur á sár. Deildin mun stækka á næstu árum, markmiðið er að tvöfaldast á næstu árum og það eru góðar líkur á því. Höllin hjálpar okkur náttúrulega að vaxa, erum inn í okkar hverfi. Krakkarnir geta mætt og stunda aðrar íþróttir líka, með körfunni. Við búumst við að fjöldinn aukist töluvert,“ sagði Oddur að lokum í viðtali við Stöð 2 og Vísi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.