Körfubolti

Segir kjaftæði hjá Boston að setja þjálfarann í bann fyrir framhjáhald

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Framtíð Imes Udoka hjá Boston Celtics er í óvissu.
Framtíð Imes Udoka hjá Boston Celtics er í óvissu. getty/Jim Davis

Ákvörðun Boston Celtics að setja þjálfara liðsins, Ime Udoka, í bann fyrir samband við samstarfskonu hefur vakið mikla athygli.

Körfuboltavéfréttin Adrian Wojnarowski greindi frá því í fyrradag að Udoka væri í vondum málum og ætti yfir höfði sér bann vegna sambands við samstarfskonu hjá Boston. Í gærkvöldi staðfesti Boston svo að félagið hefði sett Udoka í bann út næsta tímabil. Ákvörðun um framtíð hans hjá Boston verður tekin síðar. Joe Mazzulla, aðstoðarþjálfari Boston, stýrir liðinu í vetur.

Udoka hefur beðist afsökunar á framhjáhaldinu. „Ég vil biðja leikmenn, stuðningsmenn og alla í Boston Celtics og fjölskyldu mína afsökunar á að hafa brugðist þeim. Ég er miður mín að hafa sett liðið í þessa erfiðu stöðu og uni ákvörðun þess. Af virðingu við alla hlutaðeigandi ætla ég ekki að tjá mig frekar,“ sagði Udoka í yfirlýsingu.

Fá ef einhver fordæmi eru fyrir ákvörðun Boston og margir hafa furðað sig á henni. Meðal þeirra er kjaftaskurinn Stephen A. Smith á ESPN. Í færslu á Twitter segir hann að bannið sé kjaftæði og notar hástafi til að ítreka skoðun sína.

Udoka tók við Boston fyrir síðasta tímabil þegar Brad Stevens hætti sem þjálfari og gerðist yfirmaður körfuknattleiksmála hjá félaginu. Undir stjórn Udokas komst Boston í úrslit NBA en tapaði þar fyrir Golden State Warriors, 4-2.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×