Körfubolti

Um­fjöllun: Haukar-ÍR 104-53 | Mátti sjá af hverju Haukum er spáð sigri en gestunum falli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sólrún Inga Gísladóttir var frábær í kvöld.
Sólrún Inga Gísladóttir var frábær í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Haukar áttu ekki í neinum vandræðum með að leggja ÍR að velli í fyrstu umferð Subway deildar kvenna í körfubolta í kvöld. Gestirnir úr Breiðholti áttu í raun aldrei möguleika í Ólafssal, lokatölur 104-53.

Haukar voru stigahæsta liðið í spá KKÍ fyrir komandi tímabil á meðan ÍR var spáð falli. Það mátti nokkuð fljótt sjá af hverju í leik kvöldsins.

Haukar hófu leikinn nokkuð rólega og skoruðu „aðeins“ 17 stig í fyrsta leikhluta. ÍR skoraði hins vegar aðeins 19 stig í fyrri hálfleik á meðan Haukar skoruðu 41 stig og segja má að sigurinn hafi verið kominn í hús er gengið var til búningsherbergja.

Það lifnaði yfir sóknarleik beggja liða í þriðja leikhluta en um var að ræða eina leikhluta leiksinns þar sem bæði lið skoruðu yfir 20 stig. Gestirnir skoruðu 23 en heimakonur 34 og munurinn jókst enn frekar.

Fjórði leikhluti skipti því ekki öllu máli en Haukar unnu hann samt með 18 stiga mun og leikinn með 51 stigs mun, lokatölur 104-53.

Sólrún Inga Gísladóttir var stigahæst í liði Hauka með 22 stig. Þar á eftir kom Tinna Guðrún Alexandersdóttir með 18 stig og Keira Breeanne Robinson með 17 stig en hún gaf einnig 10 stoðsendingar. Í liði ÍR var Aníka Linda Hjálmarsdóttir stigahæst með 16 stig en hún tók einnig 13 fráköst.

ÍR fær Fjölni í heimsókn í næstu umferð á meðan Haukar heimsækja Val að Hlíðarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×