Körfubolti

Þorleifur: Vonandi er þetta það sem koma skal í vetur

Andri Már Eggertsson skrifar
Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var ánægður með sigur á Fjölni.
Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var ánægður með sigur á Fjölni. Vísir/Hulda Margrét

Grindavík fór illa með Fjölni í 1. umferð Subway-deildar kvenna. Leikurinn endaði með tólf stiga sigri Grindavíkur 87-75. Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var afar ánægður með sigurinn.

„Vonandi vorum við að setja tóninn fyrir tímabilið ég var allavega mjög ánægður með frammistöðuna í þessum leik,“ sagði Þorleifur og hélt áfram.

„Frá fyrstu mínútu vorum við ákveðnar og héldum því næstum því út allan leikinn en við gáfum aðeins eftir undir lokin. Ég var ánægður með samskiptin í vörninni og samskiptin eiga bara eftir að vera betri.“ 

Danielle Rodriguez kom til Grindavíkur fyrir tímabilið og Þorleifur gat ekki annað en verið ánægður með hennar framlag þar sem hún gerði 36 stig í leiknum.

„Danielle var frábær í kvöld en hún hefði mátt gefa boltann oftar þegar hún fékk á sig hjálparvörn og hún veit það sjálf. Við þurfum að opna betur þegar hún fær á sig hjálparvörn og aðrir leikmenn þurfa að græða á því hvað hún er góð.“

„Áhlaup Fjölnis kom þegar þær breyttu um vörn á Danielle. Í þriðja leikhluta vorum við að hitta úr erfiðum skotum en í fjórða leikhluta hættum við að hitta úr þeim sem var eðlilegt og þá kom Fjölnir með áhlaup,“ sagði Þorleifur að lokum og bætti við að næsta verkefni þjálfarans væri að finna lausn á því þegar Danielle fær á sig hjálparvörn 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×