Sport

„Óska Val til hamingju og góðs gengis í Evrópukeppninni

Andri Már Eggertsson skrifar
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Vilhelm

Valur og Breiðablik skildu jöfn 1-1 og óskaði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, Val til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn. Valur er með sex stiga forskot á toppnum þegar þrír leikir eru eftir. 

„Eins og hefur verið á tímabilinu þá var þetta hörkuleikur milli liðanna. Leikurinn hefði getað dottið báðu megin og undir lokin sóttum við vel á markið og fengum dauðafæri til að klára leikinn og að mínu mati þurftum við að vinna þennan leik en það tókst því miður ekki,“ sagði Ásmundur Arnarsson eftir leik.

Ásmundur var ánægður með fyrri hálfleik og fannst Breiðablik spila betur en staðan í hálfleik var jöfn 1-1. 

„Mér fannst við betri aðilinn í fyrri hálfleik. Við héldum betur í boltann og gerðum meira án þess að skapa dauðafæri þar sem þetta var lokaður leikur. Valur byrjaði síðari hálfleik betur en við svöruðum því vel og síðasta hálftímann vorum við betri.“

Ásmundur endaði á að óska Val til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn og ítrekaði að Breiðablik var ekki með það í kollinum að með tapi myndi aðeins muna einu stigi á öðru og þriðja sætinu.

„Við vorum ekkert að hugsa um þriðja sætið heldur gerðum allt sem við gátum til að vinna þennan leik. Þetta var vel gert hjá Valskonum sem eru langt komnar með Íslandsmeistaratitilinn og óska ég þeim til hamingju með það og góðs gengis í Evrópukeppninni,“ sagði Ásmundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×