Skoðun

Tryggjum börnum gott at­læti - núna

Hólmfríður Árnadóttir skrifar

Nú verður ríkið að stíga inn í og lengja fæðingarorlof barna. Þó löngu fyrr hefði verið enda ótal rannsóknir sem sýna fram á að börnum er best borgið með sínu besta fólki, foreldrum sínum fyrstu tvö árin, þessum mikilvægu árum geðtengslamyndunar. Alþingi ákvarðar lengd fæðingarorlofs og nú er lag að koma til móts við börnin fyrst og fremst en einnig foreldra/fjölskyldur og sveitarfélög því sannarlega má segja að nú ríki neyðarástand og ljúft væri að stjórnmálamönnum rynni blóð til skyldunnar. Lengi býr að fyrstu gerð segir máltækið og því eðlilegt að vel sé staðið að málefnum barna sem þó og kannski skiljanlega fer fækkandi, fæðingartíðni var aðeins 1,82 á síðasta ári sem er þó eitt metára í barnsfæðingum.

Gefum okkur að börn vilji dvelja sem mest með foreldrum sínum fyrstu tvö árin, fara svo í góðan leikskóla með faglærðu starfsfólki, fyrsta skólastiginu, þar sem hlúð er að félags-, tilfinninga-, hreyfi- og málþroska ásamt ýmsu öðru sem frjálsum leik, aðal kennsluaðferð leikskólans, tilheyrir. Gefum okkur líka að með því að tryggja að svo sé drögum við úr álagi á foreldra og fjölskyldur barnanna sem og á velferðarkerfin okkar, heilbrigðis-, félags- og menntakerfin, sem fleiri rannsóknir sýna að gerist þegar vel er hlúð að í frumbernsku, er þá ekki til mikils að vinna?

Því fyrst og fremst snýst þetta um vilja og forgangsröðun. Hvernig samfélag viljum við móta og búa í? Þar sem vel er hlúð að börnum sem taka fyrstu mikilvægu þroskaskrefin með foreldrum sínum og fara síðan í góða leikskóla með nægu rými og fagfólki til að taka á móti þeim að loknu fæðingarorlofi, börnum sem síðar verða ábyrgir sjálfstæðir einstaklingar og munu stjórna samfélaginu og annast okkur í ellinni? Því gott atlæti skilar sér í jákvæðu viðhorfi, virðingu og velsæld. Ég hvet ríkisstjórnina til að setja börnin okkar allra og um leið framtíðina í forgang (eins og oft er lofað á tyllidögum) ekki seinna en strax!

Höfundur er leik- og grunnskólakennari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×