Skoðun

Leigu­bremsa er raun­hæf og skyn­sam­leg

Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Danir ætla að koma á leigubremsu. Á danska þjóðþinginu er meirihluti fyrir því að takmarka hækkun leiguverðs næstu tvö ár. Hækkanir á húsaleigu verða takmarkaðar við 4% á ári næstu tvö árin en undanskildir verða þeir leigusalar sem sýnt geta fram á að kostnaður vegna húsnæðisins hafi hækkað umfram þá upphæð, t.d. vegna viðhalds.

Leigubremsan gildir jafnt um núverandi og tilvonandi leigusamninga og nær yfir húsnæði í eigu einkaaðila. Hafi leiga hækkað á síðustu þremur mánuðum mun viðkomandi leigusali þurfa að draga hana til baka. Þetta kjósa Danir að gera, þrátt fyrir að þar sé húsnæðisöryggi leigjenda mun meira en á Íslandi. Stöðugur húsnæðismarkaður er nefnilega grunnur að stöðugu efnahagslífi.

Neyðarástand á íslenskum húsnæðismarkaði

Ólíkt dönskum leigumarkaði eru réttindi leigjenda á Íslandi lítil. Húsnæðisöryggi er ekkert og raunveruleiki leigjenda er að búa við skammtíma leigusamninga sem gætu við hverja endurnýjun verið sagt upp eða leiga hækkuð. Sveiflur í hagkerfinu lenda beint á leigjendum. Bara það að ferðamönnum fjölgi getur orðið til þess að ógna húsnæðisöryggi, þar sem leigusamningum er sagt upp og íbúðir færðar í skammtímaleigu. Afleiðingin er öllum ljós. Leigjendur eru oftar með íþyngjandi húsnæðiskostnað og staðan er verst hjá þeim tekjulægstu. Ótal sögur berast nú verkalýðshreyfingunni um hækkun leiguverðs langt umfram verðbólgu. Hér er um að ræða verulega, áþreifanlega kjararýrnun fyrir fólk á leigumarkaði.

Loforð stjórnvalda ekki efnd

Verkalýðshreyfingin krafðist aðgerða á leigumarkaði í aðdraganda Lífskjarasamninga. Í yfirlýsingu stjórnvalda var boðað að ákvæði húsaleigulaga yrðu endurskoðuð með það í huga að vernda leigjendur þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar, þ.e. leigubremsa. Þessi loforð stjórnvalda hafa ekki verið efnd á samningstímabilinu. Það hefur ekki einu sinni tekist að ná fram smávægilegum breytingum sem snúa að skylduskráningu leigusamninga í grunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Það mál var ekki afgreitt úr þingnefnd þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnar um að það yrði afgreitt fyrir sumar.

Afleiðingin er að hækkanir dynja yfir leigjendur um þessar mundir. Danir sýna okkur að það er ekki bara hægt, heldur er afar einfalt að koma á leigubremsu. Þar getur Alþingi sett lög sem takmarka órökstudda hækkun leiguverðs í núverandi neyðarástandi. Þessi loforð er enn hægt að efna áður en kjarasamningar renna út. Á sama tíma þarf að setja stóraukinn kraft í uppbyggingu íbúða Bjargs og Blævar sem langtímalausn á leigumarkaði.

Höfundur er forseti Alþýðusambands Íslands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Ógn og öryggi í Vestur­bæ

Halla Helgadóttir,Sigríður Magnúsdóttir,Ásdís Hlökk Theodórsdóttir,Auður Karítas Ásgeirsdóttir skrifar

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.