Skoðun

Strand í Staðar­hverfi?

Helgi Áss Grétarsson skrifar

Þétting byggðar hefur lengi verið mantra þeirra sem stjórna Reykjavíkurborg. Afleiðingar þéttingarstefnunnar, þar sem ekki er hugað að innviðum fyrst, geta m.a. verið þær að erfitt sé fyrir foreldra að fá dagvistunarúrræði fyrir börn sín í viðkomandi hverfi og grunnskólar þar verði of fjölmennir. Sem dæmi um afleiðingar slíkra sprungna innviða, sjá nýlegt viðtal við skólastjóra Laugarnesskóla um ástandið í Laugardal (Skólarnir í Laugardal gjörsamlega sprungnir).

Hin hliðin – þegar tækifæri til þéttingar eru ekki nýtt

Á síðasta kjörtímabili lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að byggð í Staðarhverfi í Grafarvogi yrði gerð þéttari og fyrir kosningarnar sl. vor var það eitt af loforðum flokksins. Slík stefna er hins vegar ekki á stefnuskrá núverandi meirihluta borgarstjórnar, jafnvel þótt á síðasta kjörtímabili hafi þáverandi meirihluti borgarstjórnar lokað eina grunnskólanum í Staðarhverfi, Korpuskóla.

Helstu rökin fyrir því að loka Korpuskóla voru þau að nemendur væru of fáir. Þétting byggðar hins vegar hefði getað orðið hluti af þeirri lausn að halda skólastarfinu áfram.

Hinn 29. ágúst sl. bárust svo fréttir af því að hugmyndir væru uppi á meðal stjórnenda Reykjavíkurborgar að loka eina leikskólanum sem er rekin í Staðarhverfi (Fundað um framtíð leikskólans Bakka). Rökin aftur, fyrir þessum hugmyndum, er að húsnæðið undir leikskólann nýtist ekki með fullnægjandi hætti þar eð til lengri tíma séu nemendur of fáir.

Að loka leikskóla í Reykjavík, þegar hátt ákall er núna á meðal reykvískra foreldra um fleiri dagvistunarúrræði, stingur óneitanlega í stúf.

Þessar nýjustu hugmyndir gefa þó til kynna, rétt eins og lokun Korpuskóla, að innviðir í Staðarhverfi séu brothættir. Engin þörf er á að láta huggulegt hverfi sem þetta sigla í átt að strandi þegar bjargræðin eru mörg, m.a. með því að þétta þar byggð.

Höfundur situr fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×