Körfubolti

Elvar Már: Ekki við KKÍ að sakast

Atli Arason skrifar
Elvar Már Friðriksson, leikmaður íslenska landsliðsins.
Elvar Már Friðriksson, leikmaður íslenska landsliðsins. Vísir/Hulda Margrét

Elvar Már Friðriksson, leikmaður íslenska landsliðsins í körfubolta, segir orð sín í viðtali eftir leik Íslands og Spánar hafa verið mistúlkið.

„Þetta var algjörlega tekið úr samhengi það sem við sögðum. Ég var spurður eftir leikinn hvernig mér leið og ég sagði að ég væri þreyttur og fengið stuttan undirbúning. Það er ekki við KKÍ að sakast eða þjálfarana eða neinn. Það var enginn að benda neinum fingrum eða neitt slíkt. Þetta var bara mistúlkað,“ sagði Elvar Már í viðtali við Stöð 2 í dag.

Viðtalið við Elvar í heild má sjá í spilaranum hér að neðan en þar fer Elvar meðal annars yfir þær ástæður af hverju íslenska liðið fékk styttri undirbúning.

Framundan er hins vegar mikilvægur leikur landsliðsins við Úkraínu annað kvöld í undankeppni HM. Ísland verður að vinna leikinn til að komast aftur í bílstjórasæti í riðlinum fyrir sæti á heimsmeistaramótinu en Elvar telur Ísland eiga góða möguleika.

„Við horfðum aðeins á myndbönd af þeim í dag og þeir líta hrikalega vel út. Þeir eru með marga stóra og góða leikmenn þannig þetta verður mjög erfitt verkefni. Ef við náum að halda tempóinu hátt uppi, reyna mynda þessa stemningu sem hefur verið í þessu húsi og spila okkar leik þá eigum við góða möguleika.“

Leikurinn fer fram í Ólafssal á Ásvöllum í troðfullri höll en nú þegar eru allir miðar á leikinn uppseldir.

„Það er ekki þægilegt fyrir þessi lið að koma í lítið íþróttahús þar sem áhorfendur eru nálægt og háværir, við fáum mikinn meðbyr með áhorfendunum. Það er ekkert auðvelt að koma hingað og spila á móti okkur. Við fáum aukna orku þegar við erum að spila hér og þá getum við verið erfiðir,“ sagði Elvar Már Friðriksson, leikmaður Íslands.

Klippa: Elvar Már: Ekki við KKÍ að sakastFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.