Skoðun

Skýjaborgir í boði Samfylkingarinnar

Helgi Áss Grétarsson skrifar

Samfylkingin, með borgarstjóra í fararbroddi, lofuðu fyrir borgarstjórnarkosningarnar vorið 2014 að börn sem náð hefðu 18 mánaða aldri fengju leikskólavistun. Það loforð var ekki efnt. Sama var upp á teningnum fyrir borgarstjórnarkosningarnar vorið 2018 nema þá laut svikna kosningaloforðið að dagvistunarplássum barna sem hefðu náð 12 til 18 mánaða aldri.

Efnið var svo endurtekið fyrir borgarstjórnarkosningarnar síðastliðið vor, svo sem kröftugur hópur foreldra hefur gert kunngjört með mótmælaaðgerðum undanfarna daga.

Þegar valdhafar í Ráðhúsi Reykjavíkur geta ekki staðið við gefin loforð í leikskólamálum eru gefnar upp margvíslegar ástæður fyrir því. Með þessum útskýringum, sem flokka má undir blekkingarstjórnmál, er ætlunin að drepa málinu á dreif. Jafnframt er embættismönnum núverandi meirihluta borgarstjórnar att út á foraðið og þeir látnir standa í stafni í fjölmiðlum til að varpa ljósi á stöðu mála. Mesta spennan við samningu fjölmiðlafyrirsagna er þá að í mótun sé „minnisblað um leikskólamál“.

Öll þessi vinnubrögð geta vart talist til eftirbreytni.

Hvað er til ráða?

Að mínu viti er engin ein töfralausn til sem brúar bilið milli lok fæðingarorlofs foreldra og þar til barn á rétt á dagvistun í leikskóla eða hjá dagforeldri. Lykilatriði er að margvíslegar lausnir séu í boði þannig að foreldrar hafi raunverulegt val um úrræði. Í því sambandi má nefna fjölbreyttara rekstrarform leikskóla, fjölgun sjálfstætt starfandi leikskólum og að dagforeldrakerfið sé eflt. Huga mætti einnig að því að styrkja forsendur fyrir foreldrarekna leikskóla. Jafnframt ætti heldur ekki að útiloka þann valkost að veita foreldrum styrk sem kjósa að vera heima með börn sín til tveggja ára aldurs.

Ágæt byrjun í þessum málum væri að hlúa að þeim fjölbreyttu lausnum sem tiltækar eru og slaufa skýjaborgum sem reglulega eru settar fram í boði Samfylkingarinnar.

Höfundur situr fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×