Enski boltinn

United nær ekki að semja við Rabiot og íhugar nú miðjumann Real Madrid

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Samningaviðræður Manchester United og Adrien Rabiot virðast hafa siglt í strand og liðið er nú sagt skoða möguleikann á því að fá Casemiro.
Samningaviðræður Manchester United og Adrien Rabiot virðast hafa siglt í strand og liðið er nú sagt skoða möguleikann á því að fá Casemiro. Vísir/Getty

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United virðist ekki ætla að ná að semja við franska miðjumanninn Adrien Rabiot og liðið skoðar nú aðra möguleika til að styrkja miðsvæðið.

United hafði vonast til að fá þennan 27 ára miðjumann frá Juventus í sumar og liðin höfðu nú þegar komist að samkomulagi um kaupverð. Samningaviðræður við leikmanninn sjálfan hafi hins vegar siglt í strand þar sem launakröfur Rabiot hafi verið of háar.

Ef marka má heimildir BBC höfðu forsvarsmenn United boðið Rabiot að verða með launahæstu mönnum liðsins.

United hefur verið á höttunum eftir miðjumanni í allt sumar, en lítið sem ekkert gengið í þeim málum. Liðið hefur verið að reyna að fá Frenkie de Jong, miðjumann Barcelona, í sínar raðir frá því að félagsskiptaglugginn opnaði, en félagið gæti nú snúið sér til Real Madrid og reynt að fá hinn þrítuga Brasilíumann Casemiro til liðs við sig.

The Athletic greinir frá því að United íhugi nú að bjóða spænsku meisturunum 50 milljónir punda fyrir miðjumanninn.

Erik ten Hag, nýráðinn knattspyrnustjóri United, er sagður hrifinn af leikmanninum, sem þó á þrjú ár eftir af samningi sínum. Þrátt fyrir það gæti koma Aurélien Tchouaméni til Madrídinga gert það að verkum að hægt sé að lokka Casemiro frá liðinu þar sem samkeppnin um stöðuna er nú orðin hörð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×