Körfubolti

Lið hinnar fangelsuðu Britt­n­ey Griner komst í úr­slita­keppnina án hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skylar Diggins-Smith í leik með Phoenix Mercury á móti Connecticut Sun sama dag og Brittney Griner var dæmd í níu ára fangelsi í Rússlandi.
Skylar Diggins-Smith í leik með Phoenix Mercury á móti Connecticut Sun sama dag og Brittney Griner var dæmd í níu ára fangelsi í Rússlandi. Getty/M. Anthony Nesmith

Phoenix Mercury tryggði sér sæti í úrslitakeppni WNBA-deildarinnar í körfubolta um helgina en þetta er tíunda árið í röð sem liðið spilar um titilinn.

Tímabilið í ár er sérstakt vegna þess að einn allra besti leikmaður liðsins situr í fangelsi í Moskvu og hefur gert það síðan í febrúar.

Brittney Griner var dæmd í níu ára fangelsi á dögunum fyrir eiturlyfjasmygl en hún var handtekinn á flugvelli í Rússlandi með hassolíu í fórum sínum. Griner notaði hana í rafrettu sína og var með minna ein eitt gramm á sér.

Mercury þurfti því að spila án miðherja síns á þessu tímabili, liðið fékk til sín miðherjann Tinu Charles en hún fór á miðju tímabili og í síðustu vikunni þurfti Phoenix liðið síðan að spila án bæði þeirra Diönu Taurasi og Skylar Diggins-Smith.

Phoenix Mercury var stofnað árið 1997 og er eitt af stofnfélögum WNBA-deildarinnar. Liðið hefur unnið þrjá meistaratitla og þetta verður sautjánda úrslitakeppnin hjá félaginu.

Sandy Brondello var rekin fyrir tímabilið eftir átta ára starf og þrátt fyrir að koma liðinu í lokaúrslitin í fyrra. Í stað hennar tók við Vanessa Nygaard sem hafði aldrei þjálfað áður úi WNBA-deildinni.

Leikmenn Mercury hafa talað um það allt tímabilið hvað raunir Griner í Rússlandi hafi reynt mikið á liðið. Þær þurftu að spila leik 4. ágúst eftir að hafa horft upp á liðsfélaga sinn vera dæmda í níu ára fangelsi fyrr um daginn.

Skylar Diggins-Smith, einn besti leikmaður liðsins, var mikið niðri fyrir þegar hún ræddi við fjölmiðla eftir þann leik og hefur ekki spilað með liðinu síðan vegna persónulegra ástæðna.

Taurasi, stigahæsti leikmaður allra tíma, hefur ekki spilað frá 2. ágúst vegna meiðsla.

Þrátt fyrir allt þetta þá tókst Mercury liðinu að komast í úrslitakeppnina þar sem liðið hefur verið á hverju ári frá 2012. Liðið endaði í fjórða sæti í Vesturdeildinni og mætir Las Vegas Aces í fyrstu umferðinni.

Magnað afrek hjá liðinu en um leið er bara hægt að ímynda sér hvað þær hefðu gert með hina frábæru Brittney Griner undir körfunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.