Körfubolti

Treyja Jordan til sölu á 700 milljónir

Atli Arason skrifar
Michael Jordan í leik eitt gegn Utah Jazz árið 1998.
Michael Jordan í leik eitt gegn Utah Jazz árið 1998. Getty Images

Chicago Bulls keppnistreyja sem Michael Jordan klæddist í úrslitum NBA árið 1998 er á leið á uppboð en markaðsvirði hennar gæti náð allt að 5 milljónum Bandaríkjadala eða tæpum 700 milljónum íslenskra króna.

Jordan var í þessari treyju í fyrsta leik úrslitaeinvígisins gegn Utah Jazz, leik sem Bulls tapaði með þremur stigum, 88-85, þrátt fyrir 33 stig frá Jordan. Bulls átti síðar eftir að vinna einvígið og verða meistari en Michael Jordan var valinn verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar þetta tímabil.

Þetta er aðeins í annað skipti sem almenningur fær tækifæri til að bjóða í keppnistreyju sem Jordan klæddist í úrslitum en þetta er fyrsta rauða treyjan sem fer á uppboð. Treyjan er talin vera ein sú verðmætasta sem til er úr safni Jordan. Treyjan er vel þekkt úr The Last Dance heimildaþáttaröðinni um Jordan á Netflix streymisveitunni, sérstaklega í 10. þætti. Það er Sotheby's sem mun sjá um uppboðið á treyjunni.

„Úrslitaeinvígis keppnistreyjur frá Jordan eru sjaldgjæfar. Rauði liturinn er sá litur sem fólk hugsar um þegar þau hugsa um Michael Jordan og þetta er eina rauða treyjan úr úrslitaeinvígi sem kemur á uppboð,“ sagði Brahm Wachter, yfirmaður safngripa hjá Sotheby's, við New York Post.

Í október 2021 seldust skór sem Jordan notaði á fyrsta tímabili sínu í NBA á 1,47 milljónir Bandaríkjadala sem gerðu þá að dýrstu skóm í heimi.

Treyja sem Diego Maradonna klæddist á HM 1986 þegar hann skoraði mark með "hendi guðs" seldist á 9,28 milljónir Bandaríkjadali á dögunum, hæsta upphæð sem greidd hefur verið fyrir keppnistreyju. 

Áhugasamir geta lagt inn tilboð á uppboðinu í gegnum heimasíðu Sotheby's en uppboðið hefst þann 6. september.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.