Innlent

Enginn biðlisti í leikskólann á Skagaströnd

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Helena Mara Velemir íbúi á Skagaströnd, sem vill hvergi annars staðar búa enda segir hún Skagaströnd frábæran stað.
Helena Mara Velemir íbúi á Skagaströnd, sem vill hvergi annars staðar búa enda segir hún Skagaströnd frábæran stað. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Íbúum á Skagaströnd er að fjölga en það gerist hægt. Kona, sem flutti á staðinn fyrir þremur árum segir að staðurinn sé friðsæll og náttúran allt í kringum þorpið sé yndisleg. Börn eru tekin níu mánaða inn í leikskólann og þar er engin biðlisti.

„Þetta er bara frábær staður, hér er mikið líf og fjör og gott að vera,“ segir Helena Mara Velemir íbúi á Skagaströnd aðspurð hvernig sé að búa á staðnum.

Helena er Skagstrendingur í húð og hár en hún flutti af staðnum í þrjú ár á höfuðborgarsvæðið en var fljót að snúa til baka. Hún segir að það sé svo margt gott við staðinn.

„Ég myndi segja að það væri náttúran, kyrrðin, friðsældin og bara lítið samfélag, hér þekkja allir alla, það er voðalega notalegt stundum. Okkur er að fjölga en það gerist hægt en okkur er að fjölga já. Ég hvet fólk til að flytja til okkar, hér eru alltaf mikil ævintýri og ef fólk er fyrir ævintýri þá er þetta staðurinn,“ segir Helenda og hlær.

Helena segir að það sér einstaklega gott að ala upp börn á Skagaströnd og það sé engin biðlisti á leikskólann en þar komast börn níu mánaða inn.

En framtíð Skagastrandar, hver er hún?

„Ég vona bara að Skagaströnd eigi eftir að stækka og hér eigi eftir að koma fleiri fyrirtæki og verði byggð fleiri húsnæði.“

Einn af flottu veitingastöðunum á Skagaströnd var opnaður á þjóðhátíðardaginn á síðasta ári og hefur gengið mjög vel. Hann heitir Harbour.

„Við bjóðum upp á allskonar mat, við erum með allt frá pizzum í hamborgara niður í nýsteiktan fisk,“ segir Stefán Sveinsson íbúi á Skagaströnd og annar eigandi staðarins.

Harbour er vinsæll veitingastaður á Skagaströnd.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Stefán er líka mjög hrifin af því að eiga heima á Skagaströnd eins og Helena.

„Það er veðrið, stutt til Reykjavíkur og stutt til Akureyrar, góð staðsetning og skemmtilegt fólk.“

Stefán Sveinsson er allt í öllu á Skagaströnd og segir nánast alltaf gott veður á staðnum. Þá sé stutt að skreppa til Reykjavíkur eða Akureyrar.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×