Innlent

Í sjálfheldu þar sem þýskur ferðamaður lést nýverið

Eiður Þór Árnason skrifar
Maðurinn reyndist vera óslasaður.
Maðurinn reyndist vera óslasaður. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitir á Norðurlandi voru kallaðar út um miðja nótt eftir að tilkynning barst frá manni sem var í sjálfheldu í fjalllendi. Upphafleg staðsetning hans var talin vera á Stráfjalli og hófst leit þar um klukkan fjögur í nótt sem skilaði ekki árangri.

Fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg að við frekari eftirgrennslan hafi tekist að staðsetja manninn á Bjarnarfjalli við Hvalvatnsfjörð, austan megin við Eyjafjörð. Björgunarsveitarmenn voru sendir þangað um klukkan sex í morgun bæði landleiðina og á bátum. Maðurinn var í góðu sambandi við viðbragðsaðila en hafði verið á göngu frá því á gærkvöldi og því þreyttur.

Afar hættulegar aðstæður á svæðinu

Að sögn lögreglunnar á Norðurlandi eystra barst tilkynning um manninn klukkan 03:42 í nótt. Maðurinn var ágætlega á sig kominn en búinn að vera í sjálfheldunni í nokkrar klukkustundir og reynt lengi að koma sér úr henni.

„Nokkra stund tók að fá nákvæma staðsetningu á manninum en þegar það tókst kom í ljós að hann var á svipuðum slóðum og þýski ferðamaðurinn sem lést þarna í fjallgöngu fyrir nokkrum dögum,“ segir í tilkynningu frá lögreglu. Brattar og lausar skriður sé að finna í hlíðum Bjarnarfjalls og því afar hættulegar aðstæður. Óskað var eftir þyrlu frá Landhelgisgæslunni til að aðstoða við björgunina.

Að sögn lögreglu komu um sextíu manns að aðgerðinni og var þyrla komin á vettvang klukkan 08:40. Tókst að senda sigmann niður og hífa manninn um borð sem var fluttur til Akureyrar. Hann var óslasaður en er sagður vera reynslunni ríkari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×