Körfubolti

Gaf körfuboltakonunni blóm í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sue Bird fékk óvænt blóm frá stuðningsmanni Seattle Storm í miðjum leik eins og sjá má hér.
Sue Bird fékk óvænt blóm frá stuðningsmanni Seattle Storm í miðjum leik eins og sjá má hér. Getty/Steph Chambers

Körfuboltagoðsögnin Sue Bird er að kveðja WNBA-deildina í haust og í gær lék hún síðasta heimaleik í deildarkeppni með Seattle Storm liðinu.

Stuðningsmenn Seattle Storm troðfylltu höllina til að kveðja þessa lifandi goðsögn sem er á sínu átjánda og síðasta tímabili með félaginu.

Ungur stuðningsmaður Seattle liðsins vann hug og hjörtu margra með því að gefa Bird blóm í miðjum leik. Samskipti þeirra tveggja hlýjuðu mörgum um hjartaræturnar en unga stúlkan tók að sér að geyma blómið þar til eftir leikinn.

Hér fyrir neðan má sjá þessi skemmtilegu samskipti.

Sue Bird var með 9 stig og 6 stoðsendingar í leiknum en Seattle Storm var að sætta sig við 89-81 tap á móti hinu sterka liði Las Vegas Aces.

Bird er 41 árs gömul og sú elsta sem hefur spilað heilt tímabil í WNBA. Hún er meðal annars sá leikmaður sem hefur spilað flest tímabil, spilað flesta leiki og gefið flestar stoðsendingar í sögu deildarinnar.

Bird er líka eini leikmaðurinn í sögunni til að vinna titla á þremur mismunandi áratugum en hún varð meistari með Seattle Storm árin 2004, 2010, 2018 og 2020.

Það er reyndar nóg eftir af tímabilinu því Seattle Storm er búið að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.