Sport

Rökkvi vann fyrstu greinina sína sannfærandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rökkvi Hrafn Guðnason var líka flottur í viðtalinu eftir sigurinn.
Rökkvi Hrafn Guðnason var líka flottur í viðtalinu eftir sigurinn. Skjámynd/Youtube

Rökkvi Hrafn Guðnason byrjaði frábærlega á heimsleikunum í CrossFit í dag en þá hófst keppni í aldursflokkum.

Rökkvi vann þá fyrstu grein í unglingaflokki en þar keppa sextán til sautján ára strákar.

Rökkvi kom í mark á 21 mínútu 22 sekúndum og 22 sekúndubrotum og var meira en fimmtán sekúndum á undan næsta manni sem var Ty Jenkins frá Bandaríkjunum.

Þetta er í þriðja sinn sem Rökkvi vinnur grein á heimsleikunum en hann vann tvær í fyrra þegar hann varð í fjórða sæti í þessum sama aLdursflokki fyrir ári síðan.

Þá var Rökkvi á yngra ári en hann sýnir nú með þessari byrjun að strákurinn ætlar sér að vera á verðlaunapallinum í ár.

Rökkvi var tekinn í viðtal eftir sigurinn. Hann byrjaði á því að leiðrétta það hvernig spyrillinn sagði nafnið hans.

„Mér leið mjög vel. Það er alltaf sérstaklega gaman að byrja keppni á því að vinna fyrstu greinina. Það gefur manni andlegt forskot fyrir helgina,“ sagði Rökkvi Hrafn Guðnason.

„Ég er í fyrsta lagi í skýjunum með að vera hér og það er alltaf gaman að vinna grein. Ég er mjög þakklátur að fá tækifæri til að keppa við alla þessa frábæru stráka,“ sagði Rökkvi sem fékk auðvitað hundrað stig fyrir sigurinn.

Bergrós Björnsdóttir varð í níunda sæti í fyrstu greininni í flokki 14 til 15 ára stelpna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×