Sport

Björgvin Karl áttundi eftir fyrstu grein á heimsleikunum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Björgvin Karl var áttundi í fyrstu grein leikanna.
Björgvin Karl var áttundi í fyrstu grein leikanna.

Björgvin Karl Guðmundsson er áttundi eftir fyrstu grein heimsleikanna í Crossfit. Bandaríkjamaðurinn Spencer Panchik leiðir karlamegin en landa hans Haley Adams leiðir keppni kvenna.

Fyrsta grein leikanna snerist að mestu um hæfni á hjóli þar sem hún bar heitið hjólað í vinnuna (e. Bike to Work). Keppendur áttu að hefja keppnina á að setja tær í slá sem þeir hengu úr áður en þeir hjóluðu fimm mílur.

Að þeim mílum loknum tóku við 75 upphífingar þar sem bringan átti að snerta stöngina áður en aðrar fimm mílur á hjólinu tóku við.

Björgvin Karl var áttundi að klára fyrstu greinina en hann kom í mark á 37 mínútum og 24,35 sekúndum og fékk að launum 72 stig. Efstur er Spencer Panchik sem kom í mark á 33 mínútum og 56,09 sekúndum. Annar var Serbinn Lazar Dukic og Ricky Garard frá Ástralíu var þriðji.

Í kvennaflokki var Haley Adams frá Bandaríkjunum fyrst á tímanum 38:23,74. Hún var aðeins tæpum þremur sekúndum á undan hinni áströlsku Tiu-Clair Toomey sem var á 38:26,64. Þriðja var Emma Lawson frá Kanada á 38:30,48.

Þuríður Erla Helgadóttir kláraði greinina á 43 mínútum og 22,94 sekúndum og var 25. í mark. Sólveig Sigurðardóttir varð 35. í mark á 44:50,15.

Önnur grein dagsins hefst í kvöld en alls er keppt í fjórum greinum fyrsta daginn. Fyrsta greinin í liðakeppni hófst klukkan 16:00.

Beina útsendingu má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×