Innlent

„Þetta er með meiri heppnis­stundum í lífinu“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðrún Lára ásamt eiginmanni sínum Trausta Gunnarssyni.
Guðrún Lára ásamt eiginmanni sínum Trausta Gunnarssyni. Guðrún Lára Pálmadóttir

Guðrún Lára Pálmadóttir og eiginmaður hennar voru með þeim fyrstu til að sjá eldgosið með eigin augum í dag. Hún segir aðdragandann vera með meiri heppnisstundum lífs síns. 

Guðrún Lára Pálmadóttir var að keyra með eiginmanni sínum, Trausta Gunnarssyni, nálægt Nátthaga þegar þau komu auga á gosstrók nálægt Fagradalsfjalli. Þau kíktu á fréttamiðla og sáu að gos var hafið, ákváðu að leggja bílnum og ganga af stað. Þegar fréttastofa náði tali af Guðrúnu stóð hún á Langahrygg og horfði á þetta glænýja eldgos.

„Þetta virðist frekar lítið gos. Frekar lítil sprunga og stutt,“ segir Guðrún. „Það er mjög stíf norðaustanátt sem blæs öllum gösum til suðausturs og alveg frá okkur. Þannig það er engin mengun þar sem við erum. Erum kannski kílómetra frá sprungunni. Fólk er að fara enn þá nær en við ákváðum að gera það ekki, ef vindurinn skildi snúast eitthvað, þá myndum við lenda í bobba.“

Útsýnið frá Langahrygg.Guðrún Lára Pálmadóttir

Þau hjónin eru með þeim fyrstu til að fá að berja augum á þetta nýja eldgos en Guðrún áætlar að þau hafi séð um fimmtíu manns ganga í átt að gosstöðvunum á meðan þau voru á leiðinni þangað.

„Við fengum SMS um að fólk ætti ekki að fara nær því það væri eldgos. Það kom ekki fyrr en klukkutíma og þremur korterum eftir að eldgosið hófst og þá vorum við mætt,“ segir Guðrún og hlær.

Guðrún er sjálf menntuð sem jarðfræðingur en starfar hjá Ferðamálastofu. Hún er þó í sumarfríi þessa dagana og fóru hún og eiginmaður hennar saman til þess að kanna góðar gönguleiðir ef það skildi gjósa. Hún bjóst þó ekki við því að það myndi byrja að gjósa rétt á meðan hún væri á svæðinu.

„Þetta er með meiri heppnisstundum í lífinu. Maður á ekki von á þessu aftur,“ segir Guðrún.

Hún hvetur þá sem eru lagðir af stað í átt að gosinu að ekki fara svokallaðar A og B-leiðir en ekki er hægt að komast að gosinu þar nema að labba fram hjá gömlu gosstöðvunum. Sú ganga myndi taka um fjóra tíma í staðinn fyrir klukkutíma.

Rétt er að minna á að almannavarnir hafa varað fólk við því að ganga í átt að gosstöðvunum vegna hættu á gasmengun. 


Tengdar fréttir

Léttir að gosið sé hafið

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, segir í samtali við fréttastofu að það sé ákveðinn léttir að það sé farið að gjósa, sérstaklega á svona góðum stað. Enginn mannvirki séu í grennd við gosstöðvar en það kom honum ekkert sérlega á óvart að gosið skyldi hefjast í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.