Handbolti

Valur fær sæti í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar: „Hefði verið galið að sleppa þessu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valsmenn fara beint í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta.
Valsmenn fara beint í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta. Vísir/Hulda Margrét

Valur hefur fengið úthlutað sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta og mun því ekki þurfa að leika í undankeppni um laust sæti í riðlakeppninni.

Frá þessu var greint á heimasíðu evrópska handknattleikssambandsins, EHF, í dag. Alls eru 12 lið sem fengu úthlutað sæti í riðlakeppninni og 12 til viðbótar munu vinna sér inn sæti í gegnum undankeppnina.

Valsmenn tóku þátt í sömu keppni í fyrra, en þá þurfti liðið að fara í gegnum unandkeppni. Íslandsmeistararnir féllu að lokum úr leik gegn þýska stórliðinu Lemgo eftir harða baráttu, en þá var Lemgo ríkjandi bikarmeistari í Þýskalandi.

Valsmenn hafa undanfarin tvö ár sankað að sér öllum þeim titlum sem í boði eru í íslenskum handbolta. Liðið er ríkjandi Íslands-, bikar- og deildarmeistari og því má segja að þetta sé enn ein rósin í hnappagatið fyrir þá rauðklæddu.

„Fáum að reyna okkur á stóra sviðinu“

Jón Halldórsson situr í stjórn handknattleiksdeildar Vals, en hann segir þetta gríðarlegt tækifæri fyrir félagið og íslenskan handbolta í heild.

„Þetta er risastórt fyrir íslenskan handbolta, félagið okkar og okkar leikmenn,“ sagði Jón þegar blaðamaður Vísis náði tali af honum í morgun.

„Þetta er ótrúlega spennandi verkefni fyrir okkur. Við erum búnir að vinna allt sem í boði er síðastliðin tvö ár og það hefði verið galið að sleppa þessu.“

Jón viðurkennir þó að nú fari af stað mikil vinna þar sem þátttaka í Evrópukeppni í handbolta sé ekki beint ókeypis.

„Þetta er auðvitað mjög kostnaðarsamt og framundan er ótrúleg vinna. Þetta er ekki eins og í fótboltanum, heldur þurfum við að sjá um kostnaðinn sjálfir. Þetta eru tíu leikir, fimm heima og fimm úti, þannig að það verður mikið leikjaálag. En þetta gefur okkur vítamínsprautu og við fáum að reyna okkur á stóra sviðinu.“

„Við stóðum auðvitað í Lemgo í fyrra. Þá var Róbert Aron [Hostert] ekki einu sinni með og Björgvin [Páll Gústavsson] fékk rautt eftir samstuð við Bjarka Má [Elísson]. Þannig að það var allt á móti okkur, en samt ekki.“

„Við erum með góða blöndu af ungum og reynslumeiri leikmönnum. Þannig að þetta er bara gríðarlega spennandi,“ sagði Jón að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.