Körfubolti

Hættur með Tinda­stól og heldur til Þýska­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson á hliðarlínunni í úrslitaeinvígi Tindastóls og Vals.
Baldur Þór Ragnarsson á hliðarlínunni í úrslitaeinvígi Tindastóls og Vals. Vísir/Bára Dröfn

Baldur Þór Ragnarsson hefur sagt upp störfum sem þjálfari Tindastóls í Subway deild karla í körfubolta til að taka við starfi í Þýskalandi.

Þetta kemur fram í færslu á facebook-síðu Tindastóls í kvöld. 

„Stjórn Körfuknattleiksdeildar Tindastóls og Baldur Þór Ragnarsson hafa komist að samkomulagi um að slíta samningi sem nýlega var undirritaður og átti að gilda til loka tímabilsins 2022-2023. 

Slitin eru að ósk Baldurs sem heldur til Þýskalands þar sem hann mun sinna þjálfun hjá liðinu Ratiopharm í Ulm, en Körfuknattleiksdeild Tindastóls, leikmenn, samstarfsfólk og áhangendur þakka Baldri kærlega fyrir gott og gjöfult samstarf og óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi," segir í færslu Stólanna. 

Hinn 32 ára gamli Baldur Þór fór með Tindastól alla leið í úrslit á síðustu leiktíð þar sem Tindastóll beið lægri hlut gegn Val. Hann hafði stýrt Tindastól frá árinu 2019 en þar áður þjálfaði hann Þór Þorlákshöfn. 

Baldur Þór heldur nú á vit ævintýranna en hann hefur samið við þýska félagið Ulm sem hafnaði í fimmta sæti efstu deildarinnar þar í landi á síðustu leiktíð. 

Þar mun Baldur Þór þjálfa yngri flokka en yngriflokkastarfið hjá félaginu er með því besta í landinu. Þá mun Baldur Þór einnig vera aðstoðarþjálfari aðalliðs félagsins. 

Óvíst er hver tekur við liði Tindastóls en reikna má með færum þjálfara þar sem Stólarnir ætla sér alla leið á næstu leiktíð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.