Fótbolti

EM verður stærsti evrópski íþróttaviðburður kvenna frá upphafi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Evrópumót kvenna í knattspyrnu hefst í kvöld, en aldrei hafa fleiri miðar verið keyptir á mótið.
Evrópumót kvenna í knattspyrnu hefst í kvöld, en aldrei hafa fleiri miðar verið keyptir á mótið. Sebastian Gollnow/picture alliance via Getty Images

Evrópumót kvenna í knattspyrnu hefst í dag þegar gestgjafar Englands taka á móti Austurríki á heimavelli Manchester United, Old Trafford. Búist er við rúmlega 70 þúsund áhorfendum á leikinn, en aldrei hafa fleiri miðar verið seldir á EM kvenna.

Alls hafa um 500 þúsund miðar verið seldir á mótið. Það er rúmlega tvöfalt meira en seldist af miðum á EM í Hollandi árið 2017, en þá mættu rétt rúmlega 240 þúsund áhorfendur á völlinn. Um 700 þúsund miðar voru settir í sölu fyrir mótið og því er enn svigrúm til að bæta vel í áhorfendatölur.

Skipuleggjendur mótsins ákváðu að halda miðaverði lágu til að laða sem flesta að mótinu, sérstaklega fjölskyldufólk. Miðaverð er frá fimm til fimmtíu pund og fjögurra manna fjölskylda getur mætt á völlinn fyrir svo lítið sem þrjátíu pund, eða tæpar fimm þúsund krónur.

Eins og áður segir fer opnunarleikur mótsins fram í kvöld þegar England og Austurríki eigast við á Old Trafford fyrir framan rúmlega 70 þúsund áhorfendur. Það verður fyrsti leikurinn af 31 sem spilaður verður á mótinu, en 16 lið munu berjast um Evrópumeistaratitilinn á „stærsta íþróttaviðburði kvenna í sögunni í Evrópu“ eins og Nadine Kessler, yfirmaður kvennafótboltans hjá UEFA orðar það.

„Við getum ekki beðið eftir að boltinn byrji að rúlla,“ sagði Kessler, en þessir 500 þúsund miðar sem nú þegar hafa verið keyptir, hafa verið keyptir í 99 löndum.

„Hverjum hefði dottið það í hug á Evrópumóti kvenna? Þetta er algjörlega frábært og sýnir hversu háar væntingar við höfum og hvað það er sem við viljum ná fram.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.