Körfubolti

Fjögur möguleg skipti fyrir Durant sem Brooklyn Nets gæti samþykkt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant spilar væntanlega ekki fleiri leiki fyrir Brooklyn Nets liðið.
Kevin Durant spilar væntanlega ekki fleiri leiki fyrir Brooklyn Nets liðið. Getty/Al Bello

Það verður frekar erfitt að átta sig á landslaginu í NBA-deildinni í körfubolta á næstu leiktíð fyrr en við vitum hvar hinn frábæri Kevin Durant muni spila. Kappinn hefur beðið um að komast frá Brooklyn Nets þrátt fyrir að eiga fjögur ár eftir af samningi sínum.

Það vantar ekki áhugasöm lið því eftir að fréttirnar bárust að Durant vildi í burtu þá stoppaði ekki síminn hjá Brooklyn Nets. Á sama tíma var það strax ljóst að forráðamenn Brooklyn liðsins ætluðu ekki að leyfa honum að fara nema að fá eitthvað svakalega mikið í staðinn.

Bandarískir fjölmiðlar hafa verið að velta því fyrir sér hvaða lið geti boðið best í Durant og hér fyrir neðan má sjá slíkar pælingar.

Brooklyn Nets hefur gefið það út að félagið vilji fá stjörnuleikmann í skiptum fyrir Durant auk þess að fá valrétti og aðra leikmenn með í pakkanum.

Það eru ekki nærri því öll félög í NBA-deildinni sem geta boðið vel en sum eru í betri stöðu en önnur eins og kemur fram í samantekt The Score.

Fjögur lið eru nefnd til leiks en það eru Phoenix Suns, Toronto Raptors, Miami Heat og Golden State Warriors.

Suma rekur augun örugglega strax í nafn Golden State Warriors en NBA-meistarnir hafa áhuga á sínum gamla liðsmanni og geta boðið vel.

Brooklyn fengi þá spútnikstjörnuna Andrew Wiggins, framtíðarstjörnuna James Wiseman og svo fyrsta valrétt Golden State í nýliðavalinu á næsta ári.

Allt frá byrjun hafa lið Phoenix Suns og Miami Heat verið í kapphlaupinu en Durant á að hafa nefnt þau tvö sem lið sem hann vildi spila með.

Miami gæti boðið Tyler Herro, Duncan Robinson og marga valrétti úr fyrstu umferð en Phoenix gæti boðið Deandre Ayton, Mikal Bridges og marga valrétti úr fyrstu umferð. Það er almennt talið að það séu mestar líkur á því að Durant endi sem leikmaður Phoenix Suns.

Toronto Raptors virðist líka ætla að keppa um Durant og gætu líka boðið vel eða tvo öfluga leikmenn, OG Anunoby, Pascal Siakam sem og valrétt úr fyrstu umferð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×