Körfubolti

Bancher­o valinn fyrstur í ný­liða­vali NBA-deildarinnar og Mobl­ey bræður sam­einaðir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Paolo Banchero mun spila fyrir Orlando Magic.
Paolo Banchero mun spila fyrir Orlando Magic. ESPN

Nýliðaval NBA-deildarinnar í körfubolta fór fram með pompi og prakt í nótt. Paolo Banchero var valinn fyrstur og mun hann spila fyrir Orlando Magic á komandi tímabili. 

Paolo Banchero lék með Duka háskólanum og ætti að geta látið til sín taka strax á fyrsta tímabili með Orlando. Hann er sterkur framherji sem er þegar talinn líklegur til að vera valinn nýliði ársins.

Chet Holmgren lék með Gonzaga, sama háskóla og Kári Árnason, fyrrverandi miðvörður íslenska landsliðsins, lék með um tíma. Holmgren er áhugaverður leikmaður en um er að ræða vel rúmlega tveggja metra háan mann sem getur varið hringinn og skotið þriggja stiga skotum. Er hann talinn einn áhugaverðasti leikmaður 2022 árgangsins.

Jabari Smith lék með Auburn háskóla og var lengi vel talið að hann yrði valinn fyrstur í ár. Hann þarf að bæta leik sinn á nokkrum sviðum en er góður skotmaður og sprækur varnarmaður. Talið er að hann muni passa vel með Jalen Green hjá Rockets.

Sacramento Kings átti fjórða valrétt og valdi Keegan Murrey. Detroit Pistons valdi Jaden Ivey þar á eftir. Á vef CBS Sports má finna alla 58 leikmennina sem valdir voru í nýliðavalinu sem og umsögn um þá.

Ein af skemmtilegri sögum nýliðavalsins er sú að Cleveland Cavaliers valdi Isiah Mobley sem þýðir að hann mun nú spila með bróðir sínum, Evan, í NBA-deildinni eftir að hafa spilað saman í gagnfræði- og háskóla.

Sonur goðsagnarinnar Scottie Pippen, Scottie Pipper Jr., skrifaði undir samning við Los Angeles Lakers. Mun hann geta spilað bæði fyrir Lakers sem og G-deildarlið þeirra. Shareef O‘Neal, sonur annarrar goðsagnar, mun svo spila fyrir Lakers í sumardeild NBA en óvíst er hvort hann verði í NBA-deildinni á næstu leiktíð.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×