Körfubolti

Hetjan Hjálmar fram­lengir á Hlíðar­enda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hjálmar verður áfram á Hlíðarenda.
Hjálmar verður áfram á Hlíðarenda. Vísir/Bára Dröfn

Hjálmar Stefánsson verður áfram á mála hjá Íslandsmeisturum Vals í körfubolta. Hann framlengdi samning sitt við félagið til tveggja ára. Frá þessu var greint á samfélagsmiðlum Vals.

Hjálmar kom til Vals fyrir síðasta tímabil og fór mikinn með liðinu í Subway deild karla. Þá sérstaklega í úrslitaeinvíginu gegn Tindastól en Hjálmar var maður leiksins þegar titillinn sjálfur var undir í oddaleiknum.

Skoraði hinn 26 ára gamli Hjálmar 24 stig í oddaleiknum og sá til þess að Valur landaði hinum eftirsótta Íslandsmeistaratitli. Eftir tímabilið var Hjálmar orðaður við heimahaga sína í Hafnafirði en hann er uppalinn Haukamaður. Hann hefur hins vegar ákveðið að vera um kyrrt á Hlíðarenda.

Í 33 leikjum fyrir Val á síðasta tímabili skoraði Hjálmar átta stig að meðaltali í leik, tók fjögur fráköst og gaf eina stoðsendingu.

„Mér hefur liðið einkar vel eftir að ég kom í Val. Andinn í liðinu er frábær og náttúrulega ótrúlega gaman að vinna titilinn í fyrra. Ég hlakka til næsta tímabils og vonandi getum við endurtekið leikinn,“ sagði Hjálmar á samfélagsmiðlum Vals.

Þá kemur þar einnig fram að nánari fréttir af leikmannamálum séu væntanlegar á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×