Körfubolti

Stríðs­mennirnir einum sigri frá sigri í NBA deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Golden State Warriors þarf einn sigur í viðbót.
Golden State Warriors þarf einn sigur í viðbót. Ezra Shaw/Getty Images

Golden State Warriors lagði Boston Celtics með tíu stiga mun í fimmta leik liðanna í úrslitaeinvígi NBA deildarinnar í körfubolta. Lokatölur í nótt 104-94 sem þýðir að Golden State er 3-2 yfir í einvíginu og aðeins einum sigri frá því að landa NBA meistaratitlinum.

Einvígið hefur verið hin besta skemmtun til þessa en Stephen Curry sá til þess að staðan var 2-2 eftir fjóra leiki en hann var hreint út sagt magnaður í síðasta leik. Nú var komið að öðrum leikmönnum Stríðsmannanna að stíga upp.

Segja má að varnarleikur liðsins hafi skapað sigur kvöldsins en annan leikinn í röð tókst Boston ekki að komast í þriggja stafa tölu. Varnarleikurinn í fyrsta leikhluta skóp að vissu leyti sigurinn þar sem Boston skoraði aðeins 16 stig gegn 27 í honum.

Munurinn í hálfleik var tólf stig, 51-39. Í síðari hálfleik hins vegar vaknaði Boston liðið og gerði verulegt áhlaup. Liðið raðaði niður stigum og komst yfir í þriðja leikhluta. Heimamenn rönkuðu hins vegar við sér og voru einu stigi yfir fyrir fjórða og síðasta leikhluta leiksins þökk sé ótrúlegu skoti Jordan Poole lengst utan af velli er flautan gall.

Eftir það virtist allt loft úr gestunum frá Boston og Stríðsmennirnir fundu aftur taktinn. Fór það svo að Golden State Warriors unnu tíu stiga sigur, 104-94. Liðið er því aðeins einum sigri frá því að vinna NBA deildina, eitthvað sem liðið hefur ekki gert síðan árið 2018.

Andrew Wiggins var stigahæstur í liði Golden State með 26 stig ásamt því að taka 13 fráköst. Klay Thompson skoraði 21 stig og þá skoraði Stephen Curry 16 stig og gaf 8 stoðsendingar. Curry hitti ekki úr einu af 9 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Hjá Boston var Jayson Tatum með 27 stig og 10 fráköst á meðan Marcus Smart skoraði 20 stig og Jaylen Brown skoraði 18 og tók 9 fráköst.

Sjötti leikur liðanna fer fram í Boston á aðfaranótt Þjóðveldisdagsins 17. júní. Heimamenn þurfa sigur þar til að koma einvíginu í oddaleik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.