Körfubolti

Þurfti að rifta samningnum til þess að fá læknisaðstoð á Íslandi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dagur Kár Jónsson þurfti að rifta samningi sínum við spænska félagið Ourense.
Dagur Kár Jónsson þurfti að rifta samningi sínum við spænska félagið Ourense. Vísir/Sigurjón

Dagur Kár Jónsson varð að rifta samningi sínum við spænskt körfuboltafélag til að fá viðeigandi læknisaðstoð hér á landi.

Dagur samdi við KR í vor og mun leika með liðinu á næsta tímabili í Subway-deild karla, en hann lék áður með spænska liðinu Ourense. Dagur greindist með hjartavöðvabólgu þegar heim var komið til Íslands.

„Á æfingum þá byrja ég bara að finna að það er eitthvað skrítið í gangi, ég er með einhvern skrítinn hjartslátt,“ sagði Dagur í samtali við Stöð 2 í gær.

„Ég fer nokkrum sinnum upp á spítala og þar eru teki hjartalínurit en það er ekkert að finnast þar. Þetta gerist nokkrum sinnum og ég reyni bara að harka þetta af mér í kannski einn og hálfan mánuð.“

„Þarna er líka komin bara pressa frá liðinu að standa sig og spila. En svo kemur bara að því að ég fæ hreinlega nóg. Ég finn að það er eitthvað virkilega mikið að og mér líður ekki vel. Þannig að ég enda bara á því að rifta samningnum mínum og koma heim.“

„Það er ekki fyrr en ég kem heim að ég fæ almennilega læknisaðstoð og fer í réttu prófin og þá kemur í ljós þessi hjartavöðvabólga.“

Dagur segist þó þakklátur fyrir að hafa komist að því hvað það var sem var að hrjá hann.

„En ég er bara þakklátur fyrir að vita hvað þetta er. Þetta þarf ekkert að vera neitt hræðilegt og hefði getað verið miklu verra. Þannig ég er bara mjög spenntur að komast aftur á rétt ról.“

„Sem betur fer þarf þetta ekki að vera neitt rosalega alvarlegt. Aðalatriðið var að hvíla vel. Ég tók þarna þrjá mánuði þar sem ég var alveg off. Þetta hefði getað farið verr ef maður hefði haldið áfram á fullu. Þannig ég er bara þakklátur að þetta hafi fundist og sé á réttri leið,“ sagði Dagur að lokum.

Klippa: Þurfti að rifta samningnum til þess að fá læknisaðstoð á Íslandi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×