Skoðun

Áframhaldandi vandræði í Reykjavík

Jónas Elíasson skrifar

Nú eru kominn meirihluti í borgarstjórninni og búið að birta helstu mál. Þetta eru allt mjúk mál, en svo býður hin pólitíska tíska. Þar heyrðist lítið um helstu og dýrustu vandamál borgarinnar, fjármálin og samgöngumálin. Að vísu kom smá athugasemd um að næturstrætó myndi koma. Hann mun reynast borginni dýrari en nokkurn mann grunar í dag, en sjáum nú til.

Ekki er allt svart framundan hjá borginni, 20% hækkun fasteignagjalda mun auka tekjur borgarinnar umtalsvert og verðbólgan vegna Covid lána, sem mun ganga yfir heiminn á næstu árum, mun lækka hlutfallslegt vægi 400 milljarða skuldar Reykjavík. En fjárþörfin er svo óskapleg að lítið munar um þetta í raun. Rekstrarhallinn hefur verið um 1 - 2 milljarðar á mánuði og ekki annað að sjá en hann hækki.

En stærsta fjármáladæmi borgarinnar, borgarlínan, er af annarri stærðargráðu. Það sem, heyrðist um hana var, að reyna ætti að koma henni inn í Keldnalandið. Þetta er svokölluð 1. lota, upphaflega áætluð á 25 milljarða sem er alltof lítið, en þar er stærra fjármáladæmi á bak við en nokkurn mann grunar.

Fyrir það fyrsta þarf að byggja tvær brýr sem ekki verða tilbúna fyrr en eftir nokkur ár. Þær breyta engu fyrir samgöngur í borginni því yfir þær má enginn bíll keyra nema um 200 strætisvagnar á dag. Ef kostnaðinum er dreift á þessa umferð er hann um 5,000 kr á vagn, sem er dálítið há brúargjöld. En ríkið er búið að lofa 50 milljörðum á samgönguáætlun og 23 milljörðum á loftslagsáætlun í borgarlínu, þó hún geri bæði samgöngur og loftslag verri, og þurfi ekki að kosta nema 20 milljarða ef rétt er farið að. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem ríkið lofar 4 sinnum hærri upphæð í samgönguframkvæmd en hún kostar og það áður en hönnun liggur fyrir. Og spurningin er, getur Borgarsjóður gert sér mat úr því?

Ef verið er að reyna það, þá er borgin að minnsta kosti á réttri leið, því 50 milljarða loforð ríkisins er ekki reiðufé, heldur Keldnalandið og leggja á 1. lotu borgarlínunnar þar í gegn. Að fá það gefins upp í borgarlínu er fundið fé. Fullbyggt með þéttingaraðferðinni gæti landið færa borginni um 150 milljarða. Gallinn er sá, að það mun taka mörg ár að ná því fé inn, og gæti reynst torsótt þegar hærra íbúðaverð byrjar að draga úr sölu. Og til þess að byggja á landinu þarf að leysa vandamál sem enginn er byrjaður að spá í, og enginn vill kosta.

Þetta vandamál er Rannsóknarstöðin að Keldum. Þetta er eina rannsóknastöð landsins fyrir búfjársjúkdóma. Hún getur ekki þrifist innan um borgarlínuskrölt og þétta íbúðabyggð. Hvað er þá til ráða? Eitt er víst, Rannsóknastöðin má ekki stöðvast, ekki einu sinni tímabundið. Þá taka menn þá áhættu að búfjársjúkdómar vaði stjórnlaust yfir landið án þess að uppgötvast með vissu. Sjá menn fyrir sér hvað gerist ef gin- og klaufaveiki nær að festast í landinu eða eitthvað álíka gerist? Hér eru búfjárstofnar sem aldrei hafa þurft að þola þá veiki. Svo hvað er til ráða. Ekki annað en flytja Rannsóknarstöðina annað og vera búinn að koma henni af stað án þess að starfsemin stöðvist, áður en landið verður tekið til annara nota. Er búið að finna nýjan stað undir Rannsóknarstöðina og verið að undirbúa það með húsnæði og innréttingum ? Ónei, ekkert slíkt er í gangi, þó það taki fyrirsjáanlega nokkur ár. Þetta er alveg gráupplagt mál fyrir ríki og Reykjavíkurborg til að klúðra í sameiningu og kenna hvort öðru um.

Hvernig lenda menn í svona klemmu? Það verður að segjast eins og er, að borgin byrjaði með þeirri fáránlegu samþykkt frá 2018 um „hágæða almenningssamgöngukerfi“, þar sem „Vagnar og umhverfi borgarlínunnar mun bera svipmót léttlesta“ eins og síðar var tilkynnt. Þessi setning, sem sjálfsagt er sett inn til að réttlæta ítrekaðar ferðir að kynna sér lestar- og sporvagnakerfi í útlöndum, á stærsta sök á þeim mistökum í undirbúningi sem á eftir fylgdu. Léttlestar er borgarstjórnar tungumál fyrir sporvagna, þeir hafa ekkert til Íslands að gera og hafa aldrei haft. En Borgarstjórnin situr núna uppi með afsprengi þessarar samþykktar og mun gera í 4 ár enn. Þá verður undirbúningur að „hágæða almenningssamgöngukerfi“ búinn að taka 12 ár og ekkert hefur gerst nema vandræði.

Nýi samstarfssáttmálinn var kjörið tækifæri fyrir flokkana til að reka af sér slyðruorðið í samgöngumálum, leyfa ríkinu að laga þjóðvegakerfi höfuðborgarsvæðisins með nýjum gatnamótum og greiðari umferðarvirkjum. Af því hefði borgin haft töluverðar óbeinar tekjur. Nú er fyrirsjáanlegt að kostnaður vegna umferðartafa, sem þegar nálgast 50 milljarða á ári, mun halda áfram að hækka. Umfram eldsneytisnotkun umferðarinnar, sem þegar er 10.000 tonn/ári eða meir með tilheyrandi mengun, mun líka hækka.

Ekkert í samstarfssáttmálanum tekur á þessu í neinni alvöru. Þar er ekkert sem maður, með sama magn af sannleiksást í blóðinu og venjulegur borgarstjóri, getur ekki snúið sig út úr. Í staðin fyrir alvöru breytingar til að bæta úr þessu er haldið áfram í sama farinu. Hvaða framsóknarmaður sem er getur því farið frá þessu í fæðingarorlof, jafnvel þó hann sé nýsestur í borgarstjórn, og oddvitinn ætlar að gera það.

Höfundur er prófessor.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×