Landspítalinn sendi í dag frá sér ákall til fólks um að koma í Blóðbankann og gefa blóð vegna slæmrar birgðastöð í bankanum.
„Staðan er grafalvarleg. Lagerstaðan er bara mjög léleg og þetta stefnir öryggi sjúklinga í hættu og þetta er staða sem við þurfum að vinna upp á næstu dögum til þess að geta annað þeirri eftirspurn sem upp kemur,“ segir Ína Björg Hjálmarsdóttir deildarstjóri Blóðbankans.
Um helmingi meira þarf að vera til á lagernum að mati Ínu til að öryggi sé tryggt.
„Við eigum svona sirka kannski tvö hundruð og sjötíu einingar hér í húsi. Við viljum eiga fjögur hundruð, fjögur hundruð og fimmtíu, fjögur hundruð og fimmtíu þá erum við nokkuð sátt. Þannig að við erum langt undir því.“
Ína hefur áhyggjur af komandi sumri.
„Það er ekki gott að byrja svona í júníbyrjun með mjög lélegan lager.“
Nokkuð var að gera í Blóðbankanum í dag eftir að ákallið var sent út en margir þar eru fastagestir.
„Blóðbílinn ég bara eitthvað villtist inn í hann og síðan bara er eitthvað sem er auðvelt að gera, þannig að það er bara minnsta mál,“ segir Tómas Albert Holton einn þessara fastagesta.
Ína segir að í kringum átta þúsund blóðgjafar komi í bankann á hverju ári en erfiðlega hefur gengið að fá nýja blóðgjafa.
„Við erum náttúrulega með minnkandi hóp blóðgjafa því að við höfum ekki getað farið í blóðsöfnunarferðir. Við höfum aðallega verið að fá blóðgjafa af stór Reykjavíkursvæðinu og í kringum Akureyri. Við höfum ekki getað notað blóðbankabílinn vegna Covid. Þannig að tvö ár án þess að fá inn marga nýja það hefur áhrif á blóðgjafahópinn.“
Ína segir að blóðið sem safnist fari að mestu leyti til krabbameinssjúklinga, þeirra sem fari í aðgerðir og þeirra sem lendi í slysum.
„Nú er fólk að fara í ferðalög. Bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn. Þannig að þá fáum við fleiri slys. Þá fáum við meiri notkun og þá þurfum við að eiga nóg.“