Handbolti

Brunað með Sagosen á sjúkrahús eftir hræðilegt ökklabrot

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sagosen í leik Noregs og Íslands á EM í janúar.
Sagosen í leik Noregs og Íslands á EM í janúar. Kolektiff Images/DeFodi Images via Getty Images

Norðmaðurinn Sander Sagosen var borinn af velli þegar Kiel vann 29-22 sigur á Hamburg í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Norskir fjölmiðlar greina frá því að HM í janúar sé í hættu.

Sagosen missteig sig hrapallega í leiknum og sést vel á myndskeiðum af atvikinu að ökkli hans hafi brotnað. Sagosen var keyrður beinustu leið á sjúkrahús þar sem brotið var staðfest og segir VG í Noregi að hann verði frá í 6-8 mánuði vegna brotsins.

Sagosen mun missa af síðustu tveimur leikjunum sem eftir eru í þýsku deildinni og þá verður Kiel án hans þegar úrslitahelgi Meistaradeildarinnar fer fram 18. og 19. júní. Kiel mætir þar Barcelona í undanúrslitum en Veszprém og Kielce eru einnig í undanúrslitum.

Alls er óvíst hvort Sagosen nái sér fyrir HM í janúar. Noregur vann sér inn sæti á HM með sigri á Íslandi í leik um 5. sæti EM í janúar síðastliðnum.

Að ofan má sjá myndskeið af meiðslum Sagosens.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×