Körfubolti

LeBron James er fyrsti spilandi milljarðamæringurinn í NBA

Atli Arason skrifar
Milljarðamæringurinn LeBron James
Milljarðamæringurinn LeBron James Getty Images

LeBron James er samkvæmt Forbes formlega orðinn milljarðamæringur, í dollurum talið. Með þessu er hann fyrsti NBA leikmaðurinn sem nær þessari stöðu á meðan hann er enn þá að spila í deildinni.

James er aðeins annar leikmaðurinn í sögu NBA sem nær stöðu milljarðamærings. Körfubolta goðsögnin Michael Jordan er einnig milljarðamæringur en hann náði ekki að komast í milljarðamæringa klúbbinn fyrr en tíu árum eftir að hann hætti í körfubolta. Jordan er í dag verðmetin á 1,7 milljarða dollara.

James er launahæsti leikmaður NBA deildarinnar og er næst launahæsti íþróttamaður heims á eftir knattspyrnumanninum Lionel Messi, þegar allt er tekið til alls.

LeBron James hefur leikið með Cleveland Cavaliers, Miami Heat og LA Lakers á sínum ferli en samkvæmt Forbes hefur James þénað 383 milljónir dollara í launagreiðslur á sínum 19 ára ferli í NBA. Þá á Bandaríkjamaðurinn a.m.k. þrjár eignir, eða hallir, sem samtals eru metnar á meira en 80 milljón dollara. Einnig er körfuboltaleikmaðurinn hluthafi í Fenway Sports Group og The Springhill Company, eignarhlutar sem telja um 390 milljónir dollara. James hefur grætt yfir 500 milljónir dollara í fjárfestingum í gegnum árin.

James hefur fjórum sinnum orðið NBA meistari en það hefur verið langtíma markmið hans að verða milljarðamæringur.

„Af sjálfsögðu vil ég ná hámarks hagnaði með fyrirtæki mínu. Ef það fer svo að ég næ að verða milljarða dollara íþróttamaður, úff. Hipp hipp húrra,“ sagði James í viðtali við GQ fyrir átta árum síðan.

LeBron James er einn af aðeins 16 mönnum í heiminum með dökka hörund sem teljast milljarðamæringar. Körfuboltamaðurinn sagði þetta vera stærsta afrekið á hans ferli til þessa.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×